Skoðun

Landsnet: Að gera verk annarra að sínum. Hvað hefði Apple gert?

Magnús Rannver Rafnsson skrifar
RÚV fjallaði þann 17. apríl um erindi Línudans ehf. til Samkeppniseftirlitsins. Erindið fjallar um samkeppnis- og framfarahamlandi starfsumhverfi Landsnets auk þess sem ríkisfyrirtækið er sakað um að eigna sér í samstarfi við AraEngineering lögverndaða hönnun Línudans. Einungis er um að ræða nýjasta kaflann í langri sögu þar sem Landsnet hefur útilokað Línudans frá raunverulegu samstarfi.

Árni Björn Jónasson birti þann 14. maí grein í Morgunblaðinu þar sem hann ver hönnun þessa sem eign hans sjálfs. Þetta er athyglisverð „eftir-á-skýring“ sem er í fullkominni mótsögn við nýlegar opinberar fullyrðingar forstjóra Landsnets, stjórnarformanns Landsnets, sem og fyrrverandi forstjóra Landsnets, Þórðar Guðmundssonar – nú samstarfsmanns greinarhöfundar. Þeir félagar eru því tvísaga um uppruna stórsamninganna sem þeir hafa gert við Landsnet; án útboðs, samkeppni eða nokkurs annars sem gert gæti öðrum mögulegt að koma að málum á faglegum forsendum. Hér fer einhver augljóslega með rangt mál.

Það þarf ekki burðarþolsverkfræðing til að sjá líkindin. Hvert mannsbarn sér að um sömu ásýnd er að ræða og íslenska nýsköpunarfyrirtækið Línudans kynnti Þórði Guðmundssyni og forráðamönnum Landsnets árið 2012. Og hún er lögvernduð. Möstur þau er forstjóri Landsnets kynnti á haustdögum 2015 sem „nýja kynslóð háspennumastra“ endurspegla sömu ásýnd og búa þess vegna yfir sömu fagurfræðilegu eiginleikunum. Almenningur upplifir þessa sömu ásýnd á sama jákvæða háttinn þótt hann skilji ekki tæknina. Fram að þeim tímapunkti sem Línudans kynnti þessa nýju hönnun til leiks hafði ekkert sambærilegt litið dagsins ljós á vegum Landsnets.

Hvað ætli tæknirisinn Apple gerði ef Landsnet og AraEngineering hefðu sett á markað nýjan síma sem liti út eins og iPhone, kallaðist „Phony“ en byggi lítillega á annarri símatækni? Ég er viss um að Árni Björn Jónasson getur svarað þessu sjálfur. Þetta mál snýst einmitt ekki um tæknileg atriði. Þetta mál snýst um ásýnd, upplifun ásýndar í tilteknu umhverfi/samhengi og fagurfræðileg gæði. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar ásýnd raforkuflutningskerfa er kjarni djúpstæðs ágreinings í samfélaginu. Það var Línudans sem kom þessari hönnun á framfæri við Landsnet og á því augljósan rétt.

Hönnunarvernd

Viðskiptafræðingur sér og skilur líkindin, upplifir sömu hughrif af sömu hönnun þótt hann skilji ekki burðarþol mannvirkja. Viðskiptafræðingur getur einnig skilið betur en verkfræðingar að markaðsvirði tiltekinna útlitslegra gæða er lykilþáttur í þessu samhengi. Það er einmitt það sem Danir, Svíar og Finnar skilja svo vel þegar kemur að nýsköpun og vöruþróun. Árni Björn Jónasson undirstrikar skilningsleysi sitt á þessu sviði afskaplega vel með skrifum sínum. Hér er því ekki um það að ræða að undirritaður „geri ekki greinarmun“ á hinu eða þessu í tæknilegu tilliti – hér burðarþolstæknilegu tilliti. Hin löggilda hönnunarvernd hefur einfaldlega ekkert með tæknilega þætti að gera. Fyrir slíkt notum við það sem kallast einkaleyfi og kemur þessu máli ekki við. Greinarhöfundur Árni Björn Jónasson hefur áður gert starf mitt tortryggilegt með skrifum á þessum nótum sem miða einum of augljóslega að því að gæta persónulegra hagsmuna hans sjálfs – á kostnað samfélagsins.

Hönnunarvernd er einfaldlega fundin upp fyrir tilvik sem þessi. Það liggja mikil verðmæti í nýju ásýndinni og einmitt þess vegna er valið að nýta þessa tegund verndar, enda ekkert annað í boði fyrir þennan þátt nýsköpunar. Að eigna sér það sem aðrir hafa lagt fram og gera um það stórasamning í krafti „tengslanets“ er ekki bara ljótt og siðferðislega rangt, það er lögbrot. Að Landsnet í ofanálag geri slíka samninga við nýjan vinnuveitanda Þórðar Guðmundssonar – fyrrum forstjóra Landsnets – undirstrikar með afgerandi hætti hve stórt vandamál við erum með hér.

Línudans er nýsköpunarfyrirtæki sem þarf að gera grein fyrir viðskiptalegum þáttum síns viðskiptalíkans. Fyrirtækið þarf sömuleiðis að reiða sig á að verkum þess verði ekki stolið af innvígðum ráðgjöfum í sérhagsmunanetum. Fyrir því er sem stendur engin vernd. Orð greinarhöfundar um „algerlega nýja hönnun“ og „engar sýnilegar“ tengingar eru fráleitar fullyrðingar, enda grundvallareiginleikar í Línudans-hönnuninni sem viðkomandi ætlar nú að eigna sér líka. Eitt af þessum fjölmörgu smáatriðum sem Landsnet ásamt innvígðum sérhagsmunaráðgjöfum einfaldlega eigna sér – hrifsa til sín í krafti stöðu sinnar. Hér er um að ræða fólk sem telur sig eiga rétt umfram aðra.

Þegar fyrirtæki Árna Björns Jónassonar AraEngineering gerir í krafti tengslanets stórsamninga við Landsnet um háspennumöstur sem hafa sömu ásýnd, skapa sömu hughrif og byggja á sömu hönnun og fagurfræðilegu hugmyndafræði og möstur sem Línudans kynnti fyrir Landsneti þremur árum fyrr – sannanlega – þá er búið að taka það sem sannanlega er annarra. Þess vegna er þessu máli ekki lokið.




Skoðun

Sjá meira


×