Nú eru bara 26 dagar í fyrsta leik Íslands á EM í Frakklandi sem verður á móti Portúgal í Saint-Étienne 14. júní næstkomandi. íslenska liðið spilar líka við Ungverjaland í Marseille og við Austurríki í Saint-Denis.
Það er full ástæða fyrir íslensku stuðningsmennina til að kynna sér aðstæður í borgunum og nýta ferðina í fleira en að fylgjast með afrekum strákanna okkar inn á fótboltavellinum.
Það var því mjög góð aðsókn á nítjánda súpufund Knattspyrnusambandsins sem haldinn var í höfuðstöðvum KSÍ á Laugardalsvelli í hádeginu í gær. Viðburðurinn var tilvalinn fyrir stuðningsmenn íslenska landsliðsins sem hafa tryggt sér miða á leiki liðsins í Frakklandi.
Rétt tæplega 130 manns gerðu sér ferð í Laugardalinn til að hlýða á Gerard Lemarquis, kennara og fréttaritara, fjalla um frönsku borgirnar Marseille, Saint-Étienne, Lyon og París, sögu knattspyrnuliða borganna, áhugaverða staði til að skoða og fleira í þeim dúr á léttum og skemmtilegum nótum.
Gérard Lemarquis hefur verið búsettur á Íslandi í rúmlega 40 ár og kennt frönsku bæði í Menntaskólanum við Hamrahlíð og Háskóla Íslands. Hann er eftirsóttur fyrirlesari og hefur haldið mörg vinsæl námskeið um Frakkland hjá Endurmenntun HÍ.
Íslenska liðið spilar reyndar ekki í Lyon en borgin er stutt frá Saint-Étienne og því hugsanlegur gististaður fyrir íslenska stuðningsfólkið.
Knattspyrnusambandið gerði líka þeim greiða sem komust ekki í Laugardalinn í gær. Erindið var nefnilega tekið upp og er nú aðgengilegt þeim sem misstu af og áhuga hafa á að hlusta á það sem Gerard hafði að segja. KSÍ baðst velvirðingar á hljóðtruflunum í upphafi myndbandsins en segir það síðan lagast fljótt.
Það má sjá þetta myndband hér fyrir neðan.
Súpufundur KSÍ, 18. maí 2016 - Gerard Lemarquis fjallar um Marseille, St. Etienne, Lyon og París (St. Denis) from KSI on Vimeo.