Skoðun

Svín í verksmiðjubúskap

Guðrún Eygló Guðmundsdóttir skrifar
Í sumar á RÚV voru sýndar myndir af gyltum á básum og það fór allt á hvolf í samfélagsmiðlunum. Fáum hafði dottið í hug þrengslin og hörmungin sem þessar vesalings skepnur búa við. Þeirra veruleiki er að vera útungunarvélar, ekkert annað. Þær fá ekki að þefa af grísunum og þeir fara á spena í gegnum járngrindur. Þannig grindur eru ólöglegar í Svíþjóð og Bretlandi frá 2013 og í ESB fyrir utan fyrstu fjórar vikur meðgöngunnar.

Ekkert svínabú á Íslandi uppfyllti kröfur um bættan aðbúnað gylta árið 2014 samkvæmt skýrslu Matvælastofnunar. Í reglugerð um velferð dýra frá 1.1. 2014 er bannað að hafa gyltur á básum nema á fengitíma og í kringum got en svínabændur fá samt allt að 10 ára aðlögunartíma! Ótrúlegt! En þrátt fyrir alla umræðuna, öll stóru orðin sem féllu þá var metsala í sölu svínakjöts í október. Við hefðum átt að bindast samtökum og kaupa ekki svínakjöt nema aðbúnaðurinn verði bættur og krefjast upprunamerkingar svo hægt verði að sniðganga afurðir þeirra framleiðenda sem fara illa með dýrin sín.

Þetta er bara smáinnlegg í baráttuna um velferð dýra. En það er af nægu að taka, t.d. geldingu grísa án deyfingar, halaklippingar, o.m.m.fl.

En það eru samt til bændabýli þar sem gylturnar hafa meira rými og geta aðeins hreyft sig. Ég skora á þá bændur að láta í sér heyra og hvort það sé hægt að versla við þá beint frá býli.

Fyrir þá sem vilja fræðast meira er hægt að fara inn á www.velbu.is, það eru samtök sem berjast fyrir velferð dýra í búskap.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×