Erlent

Cameron segir skilið við þingsæti sitt

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Cameron hefur sagt bless bless við þingstörfin.
Cameron hefur sagt bless bless við þingstörfin. Vísir/Getty
David Cameron, fyrrum forsætisráðherra Bretland og leiðtogi Íhaldsflokksins hefur ákveðið að hætta sem þingmaður. Haldin verður sérstök kosning um sæti hans í Oxfordskíri.

Cameron sagði af sér embætti forsætisráðherra þegar niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Bretlands innan Evrópusambandsins sýndu að meirihluti Breta vildi segja Bretland úr ESB. Hafði Cameron barist fyrir því að Bretland yrði áfram innan ESB.

Segist hann ekki vilja þvælast fyrir Theresu May sem tók við af Cameron sem forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins. Þegar Cameron lét af embætti forsætisráðhera sagðist hann ætla sér að sitja á þingi sem óbreyttur þingmaður út kjörtímabilið sem lýkur árið 2020.

Hinn 49 ára gamli Cameron tók fyrst sæti á þingi fyrir kjördæmi sitt í Witney í Oxfordskíri árið 2001. Hann varð leiðtogi flokks síns árið 2005 og gegndi embætti forsætisráðherra frá árinu 2010 þangað til í sumar er hann sagði af sér af fyrrgreindum ástæðum.

Halda þarf sérstaka kosningu í kjördæminu til þess að fylla sæti Cameron en óvíst er hvenær sú kosning fer fram.


Tengdar fréttir

David Cameron segir af sér

David Cameron forsætisráðherra Bretlands ætlar að segja af sér í ljósi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fram fór í gær þar sem Bretar ákváðu að segja sig úr Evrópusambandinu. Cameron sagði í yfirlýsinu nú fyrir stundu að hann muni hverfa úr embætti forsætisráðherra fyrir næsta flokksþing Íhaldsflokksins í október næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×