Skoðun

Opið bréf til forsætisráðherra

Guðbjörn Jónsson skrifar
Kæri forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Ég varð satt að segja dálítið undrandi þegar ég heyrði þig segjast vera tilbúinn til að láta afnám verðtryggingar fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Aldrei hef ég gengið svo langt að vilja afnema löglega og rétt framkvæmda verðtryggingu, því ég tel viðskiptasiðferði hér á landi ekki tilbúið til þess heiðarleika sem slíkt umhverfi þarf til að geta gengið.

Ég get heldur ekki varist því að velta fyrir mér hvort í nokkru öðru lýðræðisríki hafi farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla um að hætta fullkomlega ólöglegum útreikningi tiltekins lánaflokks, sem látinn hefur vera afskiptalaus um áratuga skeið. Já ólöglegri starfsemi sem ráðamönnum þjóðarinnar, frá árinu 1983, hefur verið gerð grein fyrir að engar lagaheimildir væru fyrir þeirri útfærslu sem framkvæmd er. Eins hefur Alþingi hvers tíma einnig verið gerð grein fyrir þessu en ENGINN fram til þessa, þorað að standa með þjóðinni af réttlæti og heiðarleika.

Svokölluð núverandi heimild til verðtryggingar, er sögð byggjast á V. kafla laga nr. 38/2001, einkanlega á 13. og 14. greinum þeirra laga þar sem segir svo:

„13. gr. Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað.

14. gr. Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. [Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár frá fyrsta degi þar næsta mánaðar.]“

Þetta eru þær heimildir sem í íslenskum lögum eru til verðtryggingar á lánsfé. Ég veit ekki hve oft er búið að sýna stjórnmálamönnum fram á, með skýrum rökum, að sú hugmyndafræði sem formúlan í 13. gr. byggir á, er byggð fyrir svonefnd EINGREIÐSLULÁN, þ. e. þau lán sem greidd eru upp með einum gjalddaga í lok lánstíma. Af þeirri ástæði er einungis talað um í formúlutextanum að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Við uppgjör eingreiðsluláns er allur lánstíminn undir og verðbætur höfuðstóls gerðar upp með greiðslu lánsins. Sama reikniaðferð var viðhöfð varðandi uppgjör svonefndra „kúlulán“ sem voru í umferð fyrir bankahrun og allir sáttir við þann útreikning.

Þegar þessi sama formúla er færð yfir í lán sem endurgreiðast með mörgum gjalddögum, gerist í raun það sama og í eingreiðsluláninu. Sá hluti höfuðstólsins sem endurgreiddur er á gjalddaganum (afborgunin), verðbætist frá lántökudegi til greiðsludags hvers gjalddaga. Þannig kemur einföld verðbæting á hverja krónu lánsins, þann tíma sem lánsupphæðin er hjá lántakanum. Í eingreiðsluláni og kúluláni fær lántakinn bara einfalda verðbótahækkun á hverja krónu lánsins en höfuðstóll lánsins breytist ekki. Með svona útreikningum lækkar höfuðstóll lánsins við hverja afborgun, eins og eðlilegt og löglegt er. Afborganalánið verðbætist, eins og eingreiðslu- eða kúlulán, einu sinni hver útlánuð króna fyrir þann tíma sem krónan var í láni hjá lántakanum.

Ég hef heyrt að Umboðsmaður Alþingis (UA) hafi hlaupið á sig og sagt að REGLA Seðlabankans 492/2001 geri það að verkum að núverandi framkvæmd verðtryggingar sé lögleg. Ég er nokkuð undrandi á þessu en skilst að það hafi verið staðgengill UA sem vann umrætt álit, sem því miður er rangt.

Hér að framan var vísað til þeirra ákvæða sem eru í lögum varðandi verðtryggingu lánsfjár. Að vísu er nokkuð algengt að settar séu Reglugerðir til nánari skýringar á einstökum þáttum laga, en í Reglugerð verður ætíð að gæta þess að meginstoð þess sem í reglugerð segir, sé skilmerkilega skráð í lagatextanum. Fari Reglugerð út fyrir efni lagatextans missir reglugerðin lagagildi sitt.

Nú er það svo að í 15. gr. laga nr. 38/2001 er að finna ákvæði um heimildir Seðlabankans til innleggs í framkvæmd þessara laga. 15. greinin er svo hljóðandi:

„15. gr. Seðlabankinn getur að fengnu samþykki [ráðherra]1) ákveðið lágmarkstíma verðtryggðra innstæðna og lána. Bankinn getur jafnframt að fengnu samþykki ráðherra ákveðið að vextir verðtryggðra innstæðna og lána skuli vera óbreytanlegir á lánstímanum.

Seðlabankinn setur nánari reglur 2) um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.

1) L. 126/2011, 322. gr. 2) Rgl. 492/2001, sbr. rgl. 278/2010 og rgl. 369/2010.“

Eins og skýrt kemur fram í 15. greininni þarf viðkomandi ráðherra að samþykkja þær reglur sem Seðlabankinn setur. Þær reglur, líkt og er um útfærsluatriði laga sem sett eru með reglugerð, þá þurfa reglur Seðlabankans að eiga sér skýran heimildaþátt í lögunum sjálfum.

Það sem virðist vera að valda ruglingi í framkvæmd laga nr. 38/2001 er ákvæði 2. mgr. 15. gr. laganna en þar segir að:

„Seðlabankinn setur nánari reglur2) um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.“

Ég hef ítrekað vakið athygli á því að í þessu ákvæði stendur að Seðlabankinn setji NÁNARI reglur. EKKI NÝJAR reglur, heldur NÁNARI reglur innan þeirra laga sem fyrir hendi eru. Einnig er ljóst að Seðlabankinn hefur ekki löggjafar- eða framkvæmdavald, eins og glöggt kemur fram í 1. mgr. 15. gr. þar sem segir að Seðlabankinn geti, AÐ FENGNU SAMÞYKKI RÁÐHERRA, ákveðið reglur varðandi verðtryggingu á innlán og útlán. Samskonar samþykki þarf einnig á aðrar reglur sem Seðlabankinn setur varðandi verðtryggingu.

Nú ber svo við að í III. kafla Reglna Seðlabankans, 492/2001, 4. grein, segir eftirfarandi:

„Verðtrygging láns með ákvæði um að höfuðstóll þess miðist við vísitölu neysluverðs er því aðeins heimil að lánið sé til fimm ára hið minnsta.

Höfuðstóll láns breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli gjalddaga. Skal höfuðstóll láns breytast á hverjum gjalddaga, áður en vextir og afborgun eru reiknuð út. Grunnvísitala skal vera vísitala sú, sem í gildi er þegar lán er veitt, nema samningur eða eðli máls leiði til annars.

Gjalddagar láns skulu allir vera á sama degi mánaðar, þannig að tímabilið milli gjalddaga teljist í heilum mánuðum. Sé gjalddagi láns á einhverjum öðrum degi mánaðar en lánveiting á sér stað, skal til leiðréttingar reikna dagvexti með sérstökum verðbótum, fyrir frávikið innan lánveitingarmánaðar(mest 29 dagar). Við útborgun láns greiðir lánþegi dagvextina, ef gjalddagi er síðar í mánuði en lánveiting, en lánveitandi greiðir, ef gjalddagi er fyrr.

Á kvittunum skal jafnan gera nákvæma grein fyrir útreikningi greiðslu og áföllnum verðbótum.“

Það vekur hér athygli að strax i 1. mgr. 4. gr. Reglna Seðlabankans er kveðið á um reglu sem alls ekki er til í lögum nr. 38/2001. Er það ákvæðið um að:

„Verðtrygging láns með ákvæði um að höfuðstóll þess miðist við vísitölu neysluverðs...“

Hvergi nema í 13. gr. laga nr. 38/2001 er fjallað um hvernig reikna skuli verðbætur á lánsfé. Þar segir mjög skýrt að:

„...þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar.“

Í lögum nr. 38/2001 finnur þú engin þau fyrirmæli, í sambandi við lánsfé, að:

„höfuðstóll þess miðist við vísitölu neysluverðs“

Seðlabankinn setur þarna reglu sem hvergi á sér lagastoð. Auk þess eru þessar Reglur Seðlabankans, sem eru nr. 492/2001, ekki staðfestar af viðkomandi ráðherra og hafa því ALDREI öðlast stjórnskipulegt ígildi Reglugerðar eða lagafyrirmæla.

Í 2. mgr. 4. gr. þessara reglna Seðlabankans segir að:

„Höfuðstóll láns breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli gjalddaga.“

Þetta ákvæði er í fullkominni andstöðu við þá reiknireglu sem byggt er á í lögum nr. 38/2001. Þar er byggt á því að höfuðstóll lánsins taki einföldum verðbótum, þannig að hver króna lánsins sé verðbætt á endurgreiðsludegi hennar, þ. e. á gjalddaga afborgunar. Að höfuðstóll láns breytist stöðugt í takti við breytingu vísitölu neysluverðs hefur afgerandi margfeldisáhrif á hina veittu lánsupphæð. Hvergi í lögum nr. 38/2001 er vikið að slíkri margföldun höfuðstól láns.

Þá má einnig vekja enn og aftur athygli á því að í 2. málslið 2. mgr. 4. gr. reglna Seðlabankans nr. 492/2001, er að finna reglu sem er andstæð reiknireglum skuldabréfa og einnig andstæð útreikningi vísitalna. Í framangreindum málslið 2. mgr. 4. gr. segir svo:

„Skal höfuðstóll láns breytast á hverjum gjalddaga, áður en vextir og afborgun eru reiknuð út.“

Þarna er sagt að breyta skuli höfuðstól láns áður en afborgun er reiknuð. Þetta er algjörlega andstætt reiknireglu afborgana af skuldabréfum. Afborganir eru allar eftirágreiddar, samanber að fyrsti gjalddagi láns, með 12 gjalddaga á ári, er að jafnaði 30 dögum EFTIR lántökudag. Gjalddaginn er því ævinlega reiknaður fyrir þann mánuð sem liðinn er, og á því að reiknast af þeim höfuðstól sem í gildi var mánuðinn á undan gjalddaganum. Á sama hátt er farið varðandi vextina. Þeir eru eftirágreiddir af þeim höfuðstól sem var í gildi síðustu 30 daga fyrir gjalddaga. Það er algjörlega andstætt reglum um vaxtareikning skuldabréfa að reikna vexti af ólöglegri upphækkun höfuðstóls. Vexti á að reikna af höfuðstól áður en afborgun gjalddaga er dregin frá höfuðstól, til lækkunar á honum, en hækkun á höfuðstól er hvergi heimiluð með lögum.

Kæri forsætisráðherra. Ég held ég þurfi ekki að rekja lengra þessar ólöglegu reglur Seðlabankans, sem engin lagastoð er fyrir. Ég vil hins vegar ljúka þessu á því að benda þér á að hjá Íbúðalánasjóði, eru verðbætur eitthvað einkennilega reiknaðar. Ég er sjálfur með venjulegt jafngreiðslulán þar sem eftirstöðvar höfuðstóls eru kr. 3.780.333 og afborgun gjalddaga er kr. 6.442. Vextir af láninu eru 5,1% og á greiðsluseðli eru vextirnir rétt reiknaðir kr. 16.066 fyrir gjalddagann.

Það er hins vegar undarlegt hve upphæð verðtryggingar er há á greiðsluseðlinum. Hún er reiknuð kr. 26.404. Lánið er tekið árinu 2000, þegar neysluvísitala var 197,6. Í greiðslumánuði afborgunar er vísitalan 429,4. Einfalt er að reikna verðbætur mánaðarins með því að taka afborgunina kr. 6.442, deila þeirri upphæð með grunnvísitölu 197,6 og margfalda svo aftur með vísitölu greiðslumánaðar sem er 429,4. Verðbætur reiknast því vera kr. 13.999 en ekki kr. 26.404. Þarna munar 12.405 krónum, sem ofreiknaðar verðbætur.

Á sínum tíma gerði ég athugasemdir við þetta til Íbúðalánasjóðs og fékk þá skýringu að þetta væru verðbætur á vextina. Á greiðsluseðli er ekki sýnd nein skýring á þessum mismun á reiknuðum verðbótum og og rétt reiknuðum verðbótum gjalddagans. Passar það illa við 4. mgr. í Reglum Seðlabankans nr. 492/2001, þar sem segir að:

„Á kvittunum skal jafnan gera nákvæma grein fyrir útreikningi greiðslu og áföllnum verðbótum.“

Gagnlegt gæti nú verið fyrir greiðendur íbúðalána að fengin yrði lögmæt skýring á þessum mismun í útreikningum verðbóta á greiðsluseðlum frá Íbúðalánasjóði. Þessi mismunur er búinn að vera til staðar síðan í desember 2009. Fyrir þann tíma var á greiðsluseðli einungis sagt að um AFBORGUN VERÐBÓTA væri að ræða en ekki hver heildarupphæð verðbóta mánaðarins væri. Þá var einnig á greiðsluseðli liður sem hét „verðbætur v/vaxta“ en engar útskýringar á því hvernig þær verðbætur væru reiknaðar út.

Eðli vaxta af skuldabréfum er að vera reiknaðir út eftir á, að þegar eitt vaxtatímabil er búið eru reiknaðir út vextir fyrir liðið tímabil og þeir greiddir, með afborgun lánsins fáum dögum síðar. Skilyrði verðbóta á greiðslu er að útreiknuð hafi hún verið til staðar í meira en 30 daga, eða milli tveggja mánaða. Ef það mundi dragast í mánuð að greiða afborgun og vexti af láni, kæmi á það dráttarvextir. Aldrei er heimilt að leggja á verðbætur samhliða dráttarvaxtareikningi. Af þessu leiðir að samkvæmt greiðslureglum skuldabréfa getur ekki stofnast til verðbóta af vöxtum, því slíkar verðbætur kæmu fyrst til greina 30 dögum eftir gjalddaga, eða að kominn væri annar mánuður með nýrri vísitölu.

Ég skal viðurkenna að mér finnst það einkar dapurlegt að lánastofnun ríkisins skuli geta lagt sig niður við að fara á skjön við réttar reglur um útreikning lána. Það er varla við því að búast að aðrar lánastofnanir finni hjá sér hvöt til að virða reglur um lánaviðskipti þegar stofnun ríkisins sýnir ekki betra fordæmi en hér hefur verið sýnt fram á. Ef þú forsætisráðherra góður, hefur einlæga hvöt til að rétta hlut lántaka, þó ekki væri nema hjá Íbúðalánasjóði, yrðu margar fjölskyldur afar glaðar.




Skoðun

Sjá meira


×