Enski boltinn

Jiangsu losaði sig við Sölva og Viðar og keypti tvo leikmenn fyrir 12 milljarða

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alex Teixeira fór ekki til Liverpool heldur Kína.
Alex Teixeira fór ekki til Liverpool heldur Kína. vísir/getty
Jiangsu Suning, liðið sem íslensku landsliðsmennirnir Sölvi Geir Ottesen og Viðar Örn Kjartansson spiluðu með á síðustu leiktíð, er búið að ganga frá kaupum á Brasilíumanninum Alex Teixeira.

Kínverska félagið borgar 50 milljónir evra eða því sem nemur sjö milljörðum íslenskra króna fyrir þennan 26 ára gamla Brassa sem hefur spilað frábærlega fyrir Shakhtar Donetsk í Úkraínu undanfarin ár.

Jiangsu Suning hefur heldur betur látið til sín taka á félagaskiptamarkaðnum á síðustu dögum eftir að það seldi Viðar Örn Kjartansson og Sölva Geir Ottesen til að búa til pláss fyrir leikmenn utan Kína.

Kínverska félagið keypti Brasilíumanninn Ramires frá Chelsea undir lok félagaskiptagluggans á Englandi fyrir 33 milljónir evra og er því í heildina búið að eyða 83 milljónum evra eða tólf milljörðum íslenskra króna í tvo nýja leikmenn á síðustu fimm dögum.

Liðin í kínversku úrvalsdeildinni mega aðeins vera með fimm leikmenn sem ekki eru kínverskir í sínum röðum og einn þeirra þarf að vera frá öðru Asíulandi. Aðeins fjórir erlendir mega vera inn á í einu en þetta er gert til að efla þróun kínverskra fótboltamanna.

Gríðarlegir peningar eru komnir í kínversku deildina en í vikunni var Jackson Martínez, kólumbíski framherjinn, keyptur fyrir 42 milljónir evra frá Atlético Madríd til meistaraliðs Guangzhou Evergrande.

Liverpool reyndi að fá Teixeira í janúarglugganum og gerði Shakhtar nokkur tilboð sem öllum var hafnað. Enska félagið gat ekki keppt við ofurtilboð Jiangsu.

Jiangsu Suning hafnaði í áttunda sæti kínversku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og varð bikarmeistari með Viðar Örn og Sölva Geir innanborðs.

Viðar Örn var seldur til sænska stórliðsins Malmö en Sölvi færði sig niður í kínversku B-deildina.


Tengdar fréttir

Ramires farinn til Kína

Sama dag og Jiangsu Suning missti Viðar Örn Kjartansson opnaði félagið veskið og keypti Brasilíumanninn Ramires frá Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×