Erlent

Þúsundir misstu heimili sín á Ítalíu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Slökkviliðsmenn hjálpa íbúum í Norcia að ná eigum sínum út úr húsum sem urðu fyrir skemmdum í jarðskjálftanum síðastliðinn sunnudag.
Slökkviliðsmenn hjálpa íbúum í Norcia að ná eigum sínum út úr húsum sem urðu fyrir skemmdum í jarðskjálftanum síðastliðinn sunnudag. vísir/afp
Um fimmtán þúsund manns misstu heimili sín á sunnudagsmorgun þegar þriðji stóri jarðskjálftinn reið yfir Ítalíu á rúmlega tveimur mánuðum. Þúsundir þeirra fengu skjól í íþróttahúsum eða tjaldbúðum sem reistar voru sérstaklega á sunnudaginn. Margir þurftu að hírast í bílum sínum yfir nóttina eða gista hjá ættingjum og vinum.

Enginn lét lífið, svo vitað sé, en nokkrir tugir manna hlutu meiðsli. Eignatjón varð mikið, meðal annars á kirkjum og fornminjum.

Skjálftinn á sunnudag mældist 6,6 stig að styrkleika og var því fjórum sinnum öflugri en fyrsti stóri skjálftinn, sem varð á svipuðum slóðum þann 24. ágúst síðastliðinn.

Nærri þrjú hundruð manns létu lífið af völdum jarðskjálftans í ágúst.

Jafnframt var skjálftinn á sunnudag öflugasti jarðskjálfti sem riðið hefur yfir á Ítalíu síðan 1980.

Allir skjálftarnir þrír urðu á Mið-Ítalíu, norðaustur af Róm. Sá síðasti um sex kílómetra norður af Norcia.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×