Skoðun

Framtíð miðbæjarins – "í hvaða liði ertu?“

Hjörleifur Stefánsson skrifar
Satt að segja er erfitt að blanda sér í umræðuna um skipulags- og byggingarmál miðbæjarins. Hætt er við að maður verði fyrr en varir þvingaður niður í skotgröf öðrum hvorum megin við víglínuna – ella verður maður skotmark beggja.

Ég vil taka skýra afstöðu sem hvorugum kann að líka – halda mig á víglínunni.

Í annarri skotgröfinni er forsætisráðherra þjóðarinnar ásamt skoðanabræðrum sem vilja knýja arkitekta til að byggja eftir hugmyndum frá upphafi 20. aldar.

Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að tillaga um að leggja aldar gamla teikningu Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins, til grundvallar samkeppni arkitekta um viðbyggingu við Alþingishúsið sé ekki góð. Sá ágæti maður, Guðjón, fylgdist með tímanum og byggingarlist hans þróaðist eins og vera ber. Hann teiknaði hús í alþjóðlegum, klassískum anda í upphafi ferils síns, en síðar snerist hann meira til þjóðlegrar rómantíkur í bland við módernisma. Af hverju skyldum við nú í byrjun 21. aldar taka meira tillit til hins fyrra tímabils?

Ég er engu að síður sammála því sjónarmiði að í sögulegri vídd gamla bæjarins séu ómetanleg verðmæti sem okkur ber að gæta eins og sjáaldurs augna okkar og þar sem skemmdir hafa verið unnar á miðbænum í nafni módernismans ættum við að lagfæra þær og gera við það sem eyðilagt hefur verið.

Sanntrúaðir módernistar

Í hinni skotgröfinni eru sanntrúaðir módernistar. Þegar fúnkis-­„stíllinn“ ruddi sér til rúms vildu menn ganga milli bols og höfuðs á fyrri byggingarstílum og töldu þá vera til marks um úrelt viðhorf sem fyrstu módernistarnir hæddust að. Helst ætti að ryðja öllu slíku úr vegi fyrir „nútímabyggingarlist“. Frumkvöðlarnir fullyrtu að fúnkisstefnan væri ekki byggingarstíll heldur vísindalegt viðhorf til hlutverks byggingarlistar í samfélaginu. Fyrstu áratugina eftir að módernisminn kom til Íslands leit þorri arkitekta svo á að sögulegt gildi gamla bæjarins væri lítið sem ekkert og best færi á því að ryðja honum burtu.

Fljótlega kom hins vegar í ljós að fúnkisstefnan var bara enn einn stíllinn en hluti af sérstöðu hans var fyrirlitning á sögulegum gildum og illa grunduð upphafning á eigin ágæti sem að hluta til var ímyndað. Hugmyndin um vísindalegar aðferðir módernismans reyndust innantómt skrum.

Á hinn bóginn ber að líta til þess að vel hönnuð módernísk bygging getur búið yfir fegurð sem stenst fyllilega samanburð við klassísk meistaraverk á sviði byggingarlistar.

Þar sem klassísk bygging og fúnkishús standa saman hlið við hlið fer ekki milli mála að í svipmóti „nútímahússins“ er fólgin andúð á því gamla en ekki öfugt.

Þurfa að sýna auðmýkt

Það sem við þurfum á að halda við uppbyggingu miðbæjarins er ekki hús sem byggð eru eftir teikningum látinna snillinga og við eigum heldur ekki að byggja þar hús sem með svipmóti sínu lýsa fyrirlitningu á gömlu byggðinni.

Byggingar sem reistar eru í sögulegu umhverfi eiga skilyrðislaust að virða mikilvægi hinnar sögulegu víddar og leitast við að bæta hana og styrkja. Þær þurfa að sýna auðmýkt gagnvart þeim umhverfis­gæðum sem felast í margbreytileika og mannlegum hlutföllum gömlu húsanna og þær mega gjarna sækja til þeirra fyrirmyndir um hvaðeina sem fallegt er.

En jafnframt á nútíma byggingar­list að færa sér í nyt ný efni og -aðferðir og þróa áfram þá hlut­fallafræði sem fúnkisstíllinn byggði á. Naumhyggja módernismans getur í höndum snillings skapað klassíska fegurð en oftar verður hún þó leiðinleg og fráhrindandi.

Tilvísanir í framúrskarandi þætti í sögulegum byggingum getur gætt nútímabyggingarlist aukinni dýpt og gert hana áhugaverðari en ella.




Skoðun

Sjá meira


×