Innlent

„Auðvitað hlýtur þetta að hafa áhrif á orðspor þjóðhátíðar“

Birgir Olgeirsson skrifar
Hörður Orri Grettisson, talsmaður þjóðhátíðarnefndar.
Hörður Orri Grettisson, talsmaður þjóðhátíðarnefndar. Aðsend mynd
Hörður Orri Grettisson, talsmaður þjóðhátíðarnefndar, hefur rætt við fulltrúa neyðarmóttöku Landspítalans og Stígamóta, um að mæta til Vestmannaeyja til að taka út forvarnarstarf, gæsluna og viðbragðsteymi til að gera starf þeirra sem koma að þessum hluta hátíðarinnar enn betra.

Í hádegisfréttum Bylgjunnar sagði Hörður Orri að engin ákvörðun hefði verið tekin af hálfu fulltrúa neyðarmóttökunnar og Stígamóta hvort þetta boð þjóðhátíðarnefndar verði þegið.

„Við viljum vinna með öllum til að koma í veg fyrir kynferðisbrot og önnur afbrot,“ sagði Hörður.



Hópur tónlistarmanna
 tilkynnti í gær að þeir muni ekki leika á þjóðhátíð í Eyjum, líkt og til stóð, nema kröfum þeirra um að lögregluyfirvöld í Vestmannaeyjum temji sér þau vinnubrögð sem Landspítalinn og Stígamót telji vera æskilegust.

Í kjölfarið ákvað þjóðhátíðarnefnd að bjóða fulltrúum neyðarmóttökunnar og Stígamóta til Eyja til að fara yfir forvarnarstarfið, gæsluna og vinnu viðbragðsteymisins.

Hörður var spurður að því í hádegisfréttum Bylgjunnar hvort þessi umræða hafi haft áhrif á orðspor þjóðhátíðar. „Auðvitað hlýtur þetta að hafa áhrif á orðspor þjóðhátíðar. Umræðan hefur verið hörð og mikil undanfarna daga en það er líka þannig að meirihluti landsmanna hefur á einhverjum tímapunkti sótt þjóðhátíð og langstærstur hluti þeirra fara heim með góðar minningar og hafa áhuga á að koma aftur.“

Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, sagði við Vísi fyrr í dag að hún ætli ekki að breyta afstöðu sinni né verklagi þrátt fyrir kröfu þeirra tónlistarmanna sem ætla ekki að spila á þjóðhátíð ef það verður ekki gert.

Páley sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem hún sagði lögregluembættið í Vestmannaeyjum ætla að veita allar upplýsingar um leið og talið er að það skaði hvorki rannsóknarhagsmuni né velferð brotaþola.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×