Innlent

Hamborgarhryggur enn vinsælastur

Þorgeir Helgason skrifar
Hamborgarhryggurinn er enn vinsælasta jólamáltíð Íslendinga.
Hamborgarhryggurinn er enn vinsælasta jólamáltíð Íslendinga. vísir/Anton Brink
Tæplega helmingur Íslendinga, eða um 46 prósent, hyggst borða hamborgarhrygg í aðalrétt á aðfangadag samkvæmt nýrri könnun MMR. Vinsældir hamborgarhryggjarins dala örlítið á milli ára en í fyrra neyttu 50 prósent Íslendinga hamborgarhryggs á aðfangadag.

Niðurstöður könnunarinnar gefa einnig til kynna að Íslendingar yngri en 50 ára séu töluvert líklegri til að borða hamborgarhrygg í ár en þau sem eldri eru.

Næstvinsælustu aðalréttirnir á boðstólum Íslendinga á aðfangadag eru lambakjöt og kalkúnn en um tíu prósent Íslendinga hyggjast neyta þess á jólunum. Átta prósent hyggjast borða rjúpur og um fjögur prósent svínakjöt.

Líklegast er að rjúpur séu á boðstólum Framsóknar- og Sjálfstæðismanna en um tólf prósent þeirra sem studdu Sjálfstæðisflokkinn og þrettán prósent þeirra sem studdu Framsóknarflokkinn ætla að borða rjúpur á aðfangadag, borið saman við eitt prósent Pírata og þrjú prósent Bjartrar framtíðar. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×