Margrét vann þrjú gull á mótinu en keppt var í meistaraflokki, A- flokki og B-flokki. Margrét vann einliðaleikinn, tvíliðaleikinn og tvenndarleikinn hjá meistaraflokki kvenna. Kristófer Darri Finnsson vann tvöfalt í meistaraflokki karla.
Kristófer Darri Finnsson úr TBR sigraði einliðaleik karla eftir að hafa lagt Davíð Bjarna Björnsson úr TBR í úrslitum 21-19 og 21-18.
Margrét Jóhannsdóttir úr TBR vann einliðaleik kvenna eftir að hafa sigrað Örnu Karen Jóhannsdóttur úr TBR 21-13 og 21-19.
Tvíliðaleik karla unnu Kristófer Darri Finnsson og Davíð Bjarni Björnsson úr TBR en þeir unnu í úrslitum Bjarka Stefánsson og Daníel Thomsen TBR eftir oddalotu 19-21, 21-10 og 21-12.
Tvíliðaleik kvenna unnu Margrét Jóhannsdóttir og Sunna Ösp Runólfsdóttir úr TBR en keppt var í riðli í greininni. Tvenndarleik í meistaraflokki unnu Daníel Thomsen og Margrét Jóhannsdóttir úr TBR en þau unnu í úrslitum Egil G. Guðlaugsson ÍA og Erlu Björg Hafsteinsdóttur úr BH 21-14 og 21-16.
Í A-flokki sigraði Bjarni Þór Sverrisson í einliðaleik karla. Hann vann í úrslitum Jón Sigurðsson úr TBR eftir oddalotu 21-19, 17-21 og 21-11. Einliðaleik kvenna vann Eyrún Björg Guðjónsdóttir úr BH. Hún vann Höllu Maríu Gústafsdóttur úr BH eftir oddalotu 21-17, 18-21 og 21-13.
Tvíliðaleik karla unnu Jón Sigurðsson úr TBR og Þórhallur Einisson úr Hamri en þeir unnu í úrslitum Aron Óttarsson og Guðjón Helga Auðunsson úr TBR 21-12 og 21-13.
Tvíliðaleik kvenna í A-flokki unnu Guðrún Björk Gunnarsdóttir úr TBR og Hrund Guðmundsdóttir úr Hamri en þær unnu í úrslitum Arndísi Sævarsdóttur og Svanfríði Oddgeirsdóttur úr Aftureldingu 21-15 og 21-16.
Tvenndarleikinn unnu Þórhallur Einisson og Hrund Guðmundsdóttir úr Hamri. Þau unnu Jón Sigurðsson og Guðrúnu Björk Gunnarsdóttur úr TBR í úrslitum 21-16 og 21-18.
Elís Þór Dansson úr TBR sigraði í einliðaleik karla í B-flokki en hann vann eftir oddalotu í úrslitaleik Brynjar Má Ellertsson úr ÍA 15-21, 21-18 og 21-13.
Ingibjörg Rósa Jónsdóttir úr UMFS vann Sunnu Karen Ingvarsdóttur úr Aftureldingu í úrslitaleik í einliðaleik kvenna eftir oddalotu 16-21, 21-14 og 22-20.
Tvíliðaleik karla unnu Axel Örn Sæmundsson úr UMF Þór og Egill Magnússon úr Aftureldingu. Keppt var í riðli í greininni. Ekki var keppt í tvíliðaleik kvenna í B-flokki. Tvenndarleikinn unnu Brynjar Már Ellertsson úr ÍA og Ingibjörg Rósa Jónsdóttir úr UMFS en keppt var í riðli í greininni.



