Menning

Fleira til að njóta en fagurt landslag

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Margrét vonar að Sumartónleikar við Mývatn leggist ekki af þó hún hætti að stjórna þeim.
Margrét vonar að Sumartónleikar við Mývatn leggist ekki af þó hún hætti að stjórna þeim. Vísir/Hanna
Margrét Bóasdóttir er í bíl milli Laugarvatns og borgarinnar þegar hún svarar símanum. Hún er með handfrjálsan búnað og því getur hún auðveldlega svarað nokkrum spurningum um Sumartónleika við Mývatn sem hún er búin að plana allan júlímánuð og hefjast um helgina.

„Það er nú eða aldrei. Þetta er síðasta sumarið sem ég stjórna þessari hátíð sem ég stofnaði fyrir þrjátíu árum,“ segir hún og kveðst sjálf fædd og uppalin í Mývatnssveit. „En ég hef um langt skeið búið í fjarlægð frá sveitinni minni og er komin með mörg krefjandi verkefni annars staðar. Ég á mjög góða að fyrir norðan sem hjálpa mér en það er bara ekki rétt leið að fjarstýra svona stórum viðburðum.“

Fyrstu tóna hátíðarinnar í ár á Tríó Fókus, með Ingveldi Ýr Jónsdóttur söngkonu, Margréti Th. Hjaltested víóluleikara og Guðríði St. Sigurðardóttur píanóleikara. Þær koma fram í Reykjahlíðarkirkju klukkan 21 á laugardaginn. Síðan rekur hver viðburðurinn annan, af og til út mánuðinn.

Sá næsti eftir opnunartónleikana er Fjárlagakvöld til minningar um Jón Stefánsson organista sem lést 2. apríl síðastliðinn. Þá eru allir velkomnir til að syngja fjórraddað upp úr nótnabókinni Íslensku söngvasafni sem gjarnan er kölluð Fjárlögin, vegna myndar af kindum á kápunni. Hún geymir þjóðlög, bæði íslensk og erlend.

„Við ætlum að minnast Jóns daginn sem hann hefði orðið sjötugur,“ segir Margrét. „Við Jón vorum systkinabörn og alin upp í húsum hlið við hlið í Vogum í Mývatnssveit. Jón var sjálfur búinn að hugsa sér að halda upp á sjötugsafmælið í Mývatnssveitinni og mér er það ljúft og skylt að gera það með þeim hætti að fá fólk til að syngja fjórraddað upp úr Fjárlögunum.“

Lengi hefur verið talað um Þingeyinga sem syngi í fjórum röddum. Margrét segir að þau Jón hafi gert sitt til að halda þeirri hefð við.

„Á ári söngsins 1992 og næstu ár á eftir héldum við Jón helgarnámskeið sem við kölluðum fjárlaganámskeið því þar voru sungin þjóðlögin úr Íslensku söngvasafni. Jón lét líka alltaf kórafólkið sitt syngja þessi lög til gleði og gamans og Ríkisútvarpið tók upp mörg þeirra í flutningi kórs Langholtskirkju svo þau eru þar varðveitt. Þannig að það var einboðið að koma saman í minningu Jóns og syngja ættjarðarlögin. Ég á von á að þar verði vel mætt.“





Ingveldur Ýr, Guðríður St. Sigurðardóttir og Margrét Th. Hjaltested í Tríói Fókus verða í Reykjahlíðarkirkju á laugardagskvöldið.
En á Margrét von á að einhver taki við keflinu eftir að hún hættir að stýra Sumartónleikum við Mývatn?

„Ég er að reyna að leggja drög að því. Það er glæsilegur tónlistarmaður sem býr í sveitinni sem liggur undir feldi. Hann tekur þá bara sinn pól í hæðina, því allir móta svona listrænt starf eftir sínu höfði. En það væri synd ef hátíðin legðist af. Það eru svo margir gestir í Mývatnssveit á sumrin og þessir tónleikar hafa jafnan verið sérstaklega vel sóttir. Margir möguleikar eru líka til tónleikahalds ekki bara í kirkjunum heldur líka í jarðböðunum og Dimmuborgum. Ég hef verið með helgistund og tónlist í litla hellinum sem heitir Kirkjan í Dimmuborgum.“

Einn af flytjendum Sumartónleika við Mývatn er Benedikt Kristjánsson tenór, sonur Margrétar, sem hún segir hafa verið þátttakanda í fyrstu tónleikunum fyrir 30 árum, en þá í móðurkviði. Hann syngur 30. og 31. júlí við undirleik Bjarna Frímanns Bjarnasonar á píanó og orgel.

Síðasti viðburður hátíðarinnar er messa í bænhúsinu á Rönd og þar verður flutt tónlist frá hátíðinni. En hvar er Rönd? „Það er sumarbústaðaland við Sandvatn í eigu afkomenda Guðmundar og Ernu sem áttu Bifreiðar og landbúnaðarvélar. Þegar þau höfðu byggt bústaðinn létu þau gera lítið bænhús úr torfi og grjóti. Það er eftirmynd Reykjahlíðarkirkju sem fór undir hraun 1724 og er eins og lítill gimsteinn. Íslendingar eru einstaklega duglegir að sækja guðsþjónustur í óbyggðum og öðrum skrítnum stöðum þó þeir rati ekki í sínar sóknarkirkjur svo ég vona að þeir mæti á Rönd.

Aðgangur er ókeypis að flestum sumartónleikunum við Mývatn. Margrét kveðst hafa fengið framúrskarandi tónlistarfólk af öllu landinu til að koma þar fram, eins og fyrri ár.

„Ég er alltaf jafn stolt af því að hafa svona gott fólk undir nafni sumartónleikanna því það er svo góðir fulltrúar menningar þjóðarinnar. Það er líka gaman að ferðamenn átti sig á að hér á Íslandi er fleira til að njóta en fagurt landslag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.