Erlent

Kjósa um vantraust gegn Zuma

Samúel Karl Ólason skrifar
Jacob Zuma, forseti Suður-Afríku.
Jacob Zuma, forseti Suður-Afríku. Vísir/EPA
Þing Suður-Afríku mun í dag kjósa um vantrausttillögu gegn forseta landsins Jacob Zuma. Æðsti dómstóll landsins komst að því á dögunum að hann hefði brotið gegn stjórnarskrá landsins. Hann notaði opinbert fé til framkvæmda á eigin heimili. Stjórnarandstaða landsins lagði tillöguna fram en líklegt þykir að hún verði ekki samþykkt.

Stjórnarandstaðan fór fram á að kosið yrði um tillöguna í leynikosningu, en þeirri beiðni var hafnað.

Samkvæmt frétt BBC hefur Zuma reglulega verið sakaður um spillingu frá því hann var kosinn forseti árið 2009. Meðal annars var hann sakaður um að þiggja mútur vegna vopnasölu. Hann neitaði ásökunum og kærur voru látnar falla niður skömmu áður en hann tók við embætti.

Meðal þess sem Zuma lét byggja á heimili sínu var sundlaug, sýningasalur og aðstaða fyrir búfénað.

Forsetanum var skipað að endurgreiða kostnaðinn vegna framkvæmdanna, en hann neitaði því. Þá fór stjórnarandstæðan fram á að æðsti dómstóll landsins myndi úrskurða í málinu. Dómstóllinn komst að því að Zuma hefði brotið gegn stjórnarskrá landsins og að honum væri skylt að endurgreiða kostnaðinn.

Þá var þingið gagnrýnt af dómstólnum fyrir að draga forsetann ekki til ábyrgðar. Zuma sagði á föstudaginn að hann myndi fylgja niðurstöðunni og barst hann afsökunar á málinu. Hann hefði aldrei ætlað sér að brjóta gegn stjórnarskránni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×