Erlent

Íslenskur hópur sagður á bak við gríðarstóran gagnaleka í Tyrklandi

Bjarki Ármannsson skrifar
Meðal þeirra sem lekinn virðist ná til er Recep Erdogan, hinn mjög svo umdeildi forseti Tyrklands.
Meðal þeirra sem lekinn virðist ná til er Recep Erdogan, hinn mjög svo umdeildi forseti Tyrklands. Vísir/AFP
Tölvuþrjótar segjast hafa lekið á netið persónuupplýsingum nærri fimmtíu milljóna tyrkneskra ríkisborgara. Í erlendum fjölmiðlum er gagnalekinn sagður gríðarlega stór og tengjast mögulega Íslandi.

Í Tyrklandi búa rúmar sjötíu milljónir manna og er því um að ræða rúman meirihluta þjóðarinnar, ef satt reynist. Yfirlýsingar tölvuþrjótanna hafa ekki verið staðfestar, en á vefsíðu þeirra er hægt að sækja gögn sem innihalda meðal annars kennitölur og heimilisföng.

Meðal þeirra sem lekinn virðist ná til er Recep Erdogan, hinn mjög svo umdeildi forseti Tyrklands. Á vefsíðunni er farið hörðum orðum um Erdogan og virðist gagnalekinn þannig að einhverju leyti framkvæmdur af pólitískum ástæðum.

Að því er fréttaveitan AP greinir frá, virðist vefsíðan sem um ræðir hýst á tölvuþjónum íslenska hópsins Flokinet sem sérhæfir sig í að opinbera leynilegar upplýsingar sem þessar.

AP segist í gær hafa sannreynt að upplýsingarnar séu að minnsta kosti að einhverju leyti réttar. Ef fullyrðingar tölvuþrjótanna eru sannar er um einhvern stærsta gagnaleka sögunnar að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×