Skoðun

Gamalt fólk borgar fyrir sig sjálft

Guðrún Ágústsdóttir skrifar
Mikið er talað um að gamalt fólk sé byrði á samfélaginu. Einkum er rætt um þann ægilega vanda sem blasi við í framtíðinni. Rætt er um að eftir nokkra áratugi verði helmingur þjóðarinnar að vinna fyrir hinum helmingnum. Helmingurinn af þeim helmingi sem eftir er eru börn og unglingar og engum hefur dottið í hug að innleiða barnaþrælkun eða að skera niður við skólakerfið af því að unga fólkið sé svo fjölmennt. Það er eðlilegt í siðuðu samfélagi að búa vel að ungu fólki, börnum og unglingum og að aðstoða yngstu fjölskyldurnar af stað í lífinu með barnabótum og húsnæðisstuðningi, leikskólum og grunnskólum. Engum dettur í hug að tala um unga fólkið sem vandamál eða byrði á samfélaginu.

Öðru máli gegnir um aldraða. En það er nefnilega líka rangt að tala um aldraða sem byrði. Það er í fyrsta lagi af því að aldraðir hafa flestir unnið fyrir sér með langri starfsævi og hafa borgað skatta og skyldur til samfélagsins. En það er í öðru lagi vegna þess að aldraðir hafa lagt fyrir í lífeyrissjóði hluta af tekjum sínum. Þeir hafa sparað til elliáranna. Og þeir hafa ekki aðeins sparað til þeirra ára þegar þau eru frísk og heil heilsu. Þau greiða líka fyrir vistun á heimilum fyrir aldraða með lífeyrinum sínum. Lífeyrissjóðirnir eru með sterkustu stofnunum okkar þjóðfélags. Nú orðið er oft talað illa um lífeyrissjóðina. Það er rangt og það er hættulegt. Ef við tölum niður og veikjum lífeyrissjóðina værum við einmitt að auka á skattgreiðslur annarra í samfélaginu.

Tengdamóðir mín er 92 ára. Hún eignaðist átta börn. Hún hafði á sl. ári 1,4 millj. kr. í lífeyri frá lífeyrissjóðum en hún komst ekki út á almennan vinnumarkað, vann lengi við ræstingar, fyrr en hún varð orðin hálffimmtug. Til viðbótar þessum 1,4 milljónum sem hún borgar sér sjálf greiddi Tryggingastofnun 1,1 millj.kr. Alls 2,5 millj.kr. Af þessum 2,5 millj.kr. alls greiddi hún svo 400 þúsund í skatta – eða 4/11 af því sem ríkið borgaði henni eða 36% af því sem ríkið borgaði henni. Nú er hún á hjúkrunarheimili og greiðir kostnaðinn við það að verulegu leyti af sínum lífeyri. Það er rangt að tala um þetta fólk sem byrði. Það bjó til þjóðfélagið sem við lifum í.








Skoðun

Sjá meira


×