Skoðun

Opið bréf til Útlendingastofnunar

Helga Tryggvadóttir skrifar


Nýlega var tveimur sýrlenskum flóttamönnum vísað úr landi. Þeir voru hraktir burt úr vinnu og frá vinum sínum og kunningjum og sendir til Búlgaríu, lands sem þeir hafa engin tengsl við og þekkja engan. Ástæðan er sú að Búlgaría er fyrsta landið innan Evrópu þar sem þeir eru með skráð fingarför. Það jafngildir því að vera fastir í þar í landi um ókomna tíð. 

Þar sem kerfið virkar svona fá þeir ekki dvalarleyfi hér sem flóttamenn. Þeir eru ekki taldir í lífshættu í Búlgaríu og því finnst íslenskum stjórnvöldum allt í lagi að vísa þeim aftur þangað, þrátt fyrir að þeir hafi báðir búið á götunni þar, annar þeirra atvinnulaus og með enga von um vinnu, á meðan hinum var slitið út í vinnu og svo neitað um laun. 

Eftir að þeir komu hingað fór þeim strax að vegna betur en þar sem þeim hafði verið neitað um stöðu flóttamanns sóttu þeir um dvalarleyfi vegna skorts á vinnuafli. Það veitir ekki nærri því sömu réttindi, en í þeirra tilfelli finnst þeim allt skárra en Búlgaría. 

Áður en sú umsókn var einu sinni opnuð þurftu þeir að fara úr landi því reglurnar gera ekki ráð fyrir því að útlendingar séu á landinu á meðan dvalarleyfisumsókn er tekin fyrir. Það var ekki tekið tillit til þess að þeir væru flóttamenn og því gætu þeir ekki einfaldlega snúið aftur til heimalandsins og biðið þar rólegir á meðan. 

Lögin gera þó ráð fyrir því að umsækjandi um dvalarleyfi megi dvelja á landinu ef ríkar sanngirnisástæður séu fyrir hendi. Ef það eru ekki ríkar sanngirnisástæður að vera ófær um að snúa aftur til heimalandsins þá veit ég ekki hvað getur kallast sanngjarnt. Sama dag og þeim var vísað úr landi sprengdi stjórnarherinn í Sýrlandi spítalann í Aleppo í loft upp og drápu eina barnalækninn sem eftir var í borginni. Báðir eru mennirnir að flýja það að vera kallaðir í sýrlenska herinn sem ber ábyrgð á svona voðaverkum. 

Að vísa þeim til Búlgaríu, þar sem þeir hafa ekkert viðurværi, í stað þess að leyfa þeim að dvelja hér, getur heldur ekki með nokkru móti talist sanngjarnt. Ef vandamálið snýst um framfærslu á meðan veit ég um fullt af fólki sem er tilbúið að hjálpa. Ef vandamálið snýst um það að of margir gætu þá farið sömu leið og fengið dvalarleyfi af þessu tagi, þá langar mig bara að benda á að það er alls ekki auðvelt að hljóta það. Til þess þarf bæði að hafa atvinnu og afar þolinmóðan atvinnurekanda. Enginn innan EES svæðisins getur fengist í vinnuna, þá gengi hann fyrir. Áður en umsókn um atvinnuleyfi fer í gegn þarf hún að fara til útlendingastofnunar, lögreglunnar, vinnumálastofnunar, fá umsögn stéttarfélags og viðkomandi þarf að sýna fram á að hafa húsnæði. Stjórnvöld þurfa því varla að óttast það að „allir“ gætu nýtt sér þessa leið þó þau sýndu einhverjum sanngirni.

Þeir Wajde og Ahmad höfðu náð að feta sig þessa slóð og voru komnir á þann stað að geta hafið nýtt líf, um leið og leyfið væri komið í gegn. En vegna óbilgirni kerfisins var ekki tekið neitt tillit til þeirra aðstæðna og þrátt fyrir að hafa barist við skrifræðið var þeim vísað úr landi. 

Nú hafa þeir báðir yfirgefið landið. Skrifræðinu hefur verið fróað. Nú er ekki seinna vænna fyrir Útlendingastofnun að afgreiða dvalarleyfisumsóknina svo þeir geti snúið sem fyrst til baka.

 




Skoðun

Sjá meira


×