Enski boltinn

Van Gaal: Þetta er stórt kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Louis van Gaal.
Louis van Gaal. Vísir/Getty
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, leggur mikla áherslu á mikilvægi leiks leiksins í kvöld þegar United sækir lið West Ham heim á Boleyn Ground.

Ef Manchester United vinnur í kvöld þá dugar liðinu að vinna Bournemouth á heimavelli í lokaumferðinni til að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni.

Þetta verður lokaleikur West Ham á Boleyn Ground en það var einmitt á þeim velli sem Manchester United sló West Ham út úr átta liða úrslitum enska bikarsins á dögunum.

„Já þetta er mjög stórt kvöld. Ég held að leikmennirnir muni líka finna fyrir því," sagði Louis van Gaal aðspurður um þetta tilfinningaríka kvöld þar sem sem West Ham kveður völlinn sem liðið hefur spilað á í meira en öld en Sky Sports sagði frá.

„Við erum að fara að mæta félagi sem er að kveðja völlinn sinn. Þeir vilja ekki tapa síðasta leiknum á þessum velli," sagði Louis van Gaal.

„Þeir hafa þegar tapað þarna leik á móti Man United í bikarnum og það var einnig sögulegur leikur. Það er heldur ekki gott fyrir okkur fyrir utan það að West Ham er með mjög gott lið," sagði hollenski stjórinn.

„Við berum mikla virðingu fyrir West Ham. Þetta er sögufrægur klúbbur í Englandi og við viljum því helst ekki spilla veislunni þeirra. Málið er bara að við þurfum á þessum þremur stigum að halda," sagði Louis van Gaal.

Louis van Gaal þakkaði síðan fjölmiðlamönnum á fundinum fyrir að spyrja hann út í mótherjann fremur en að tala um hvort að hann sé að fara að missa starfið.

Leikur West Ham og Manchester United hefst klukkan 18.45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×