Enski boltinn

Joey Barton súr í sigurhátíð liðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joey Barton var ekki sáttur.
Joey Barton var ekki sáttur. Vísir/Getty
Joey Barton var ekki alltof sáttur í gærkvöldi þrátt fyrir að það væri tilvalið tilefni til að fagna sæti í ensku úrvalsdeildinni með félögum sínum í Burnley-liðinu.

Burnley tryggði sér sigur í ensku b-deildinni um helgina og endurheimti þar með sæti sitt í úrvalsdeildinni eftir aðeins eins árs fjarveru.

Joey Barton var hinsvegar skilinn útundan þegar kom að því að láta leikmenn liðsins fá verðlaunapening.

Joey Barton átti mjög flott tímabil og er leikmaður ársins hjá félaginu en hann mætti seint á verðlaunaafhendinguna og missti fyrir vikið af því að fá gullpening um hálsinn.

Barton var greinilega mjög súr yfir þessu því hann neitaði að lyfta bikarnum þegar hann var látinn ganga á milli leikmanna liðsins.

Eftir hátíðina fór hann inn á Twitter. „Enginn verðlaunapeningur. Hvað er eiginlega í gangi?," skrifaði Joey Barton á Twitter-síðu sína.

Enska b-deildin gaf Burnley skýr fyrirmæli um það að aðeins 25 verðlaunapeningar væru í boði. Það mættu hinsvegar 27 leikmenn Burnley í verðlaunaafhendinguna.

Joey Barton var því ekki sá eini sem fékk ekki verðlaunapening því varnarmaðurinn James Tarkowski var heldur ekki með gull um hálsinn.

Joey Barton spilaði 38 leiki með Burnley í ensku b-deildinni og var með 3 mörk, 3 stoðsendingar og 9 gul spjöld í þeim en hann fékk ekki rautt spjald allt tímabilið.

Mikilvægasta mark Joey Barton var vafalaust sigurmark hans á móti Preston en það mark kom liðinu á toppinn í lok tímabilsins þar sem liðið hélt sína til út tímabilið.

Vísir/Getty
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×