Enski boltinn

Klopp horfði ekki á vítakeppnina í gær og þetta er ástæðan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp fagnar sigri í gærkvöldi.
Jürgen Klopp fagnar sigri í gærkvöldi. Vísir/Getty
Knattspyrnustjóri Liverpool, Þjóðverjinn Jürgen Klopp, sá ekki sína menn vinna vítaspyrnukeppnina á móti Stoke City. Liverpool vann vítakeppnina 6-5 en Klopp horfði ekki á eitt víti hjá sínum mönnum.

Klopp sá því ekki Emre Can skjóta í stöngina, þá Christian Benteke, Roberto Firmino, James Milner, Lucas og Joe Allen skora úr sínum spyrnum eða Belgann  Simon Mignolet verja víti frá þeim Peter Crouch og Marc Muniesa.

Sjá einnig:Jürgen Klopp: Við vinnum á Wembley

„Ég sá ekki eitt víti. Ég var fyrir aftan vegg af mínum leikmönnum og fylgist með þaðan. Ég mun horfa á þetta seinna í sjónvarpinu en það var gaman að fylgjast með stuðningsfólkinu í staðinn,“ sagði Jürgen Klopp við BBC eftir leikinn.

Það sást líka á því að sjónvarpsvélunum á vellinum gekk ekki alltof vel að finna þýska stjórann á meðan vítakeppninni stóð. Hann er oftast miklu meira áberandi á hliðarlínunni en hann var á meðan vítakeppninni stóð í gærkvöldi.

Klopp sagði frá því í viðtali við heimasíðu Liverpool af hverju hann horfði ekki á vítakeppnina.

„Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Vanalega horfi ég á vítakeppnir en ef ég hefði stillt mér upp fyrir framan stúkuna þá hefðu áhorfendurnir í fyrstu röð ekki séð. Ég get ekki verið á hnjánum svona lengi. Ég sleit krossband fyrir tuttugu árum og er ekki enn orðinn hundrað prósent góður,“ sagði Klopp og bætti við:

„Þess vegna sat ég á stól og gat ekki séð neitt. Mér leið samt vel þarna og það var gott að sjá bara fólkið. Við unnum á endanum án þess að ég horfði á og það var fyrir öllu,“ sagði Klopp.

Liverpool er komið í úrslitaleik enska deildabikarsins sem fer fram á Wembley 28. febrúar næstkomandi.

Vítaspyrnukeppnina má sjá að neðan.

„Nú munum við horfa á leik Everton og Manchester City. Þetta verður úrslitaleikur á milli liða frá norður Englandi. Wembley er góður staður til að spila og til að vinna en það er ekki sérstaklega gaman að tapa þar," sagði um leik kvöldsins en þá fer fram seinni undanúrslitaleikurinn í hinni viðureigninni.  

Everton vann 2-1 sigur á Manchester City í fyrri leiknum og kemur því eins marks forskot inn í leikinn eins og Liverpool í gær. Manchester City skoraði aftur á móti mikilvægt útivallarmark í fyrri leiknum á Goodison Park.

BBC segir frá því að Liverpool hafi nú fagnað sigri í 11 af síðustu 13 vítakeppnum sínum í öllum keppnum.

Jürgen Klopp faðmar Simon Mignolet sem varði tvö víti í vítakeppninni.Vísir/Getty
Jürgen Klopp hrósaði Jon Flanagan eftir leik og talaði um hans sem besta leikmann síns liðs í leiknum.Vísir/Getty

Tengdar fréttir

Klopp: Áttum þetta skilið

Jürgen Klopp hæstánægður með að vera kominn með Liverpool í sinn fyrsta úrslitaleik.

Jürgen Klopp: Við vinnum á Wembley

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var kátur í gærkvöldi eftir að lið hans komst í úrslitaleik enska deildabikarsins og var tilbúinn að lofa því að Liverpool tæki bikarinn á Wembley.

Klopp: Ferguson er John Lennon fótboltans

Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að Sir Alex Ferguson, fyrrum knattspyrnustjóri Manchester United, sé í raun John Lennon fótboltans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×