Erlent

Myndband af árás veldur usla í Kína

Samúel Karl Ólason skrifar
Samfélagsmiðlar hafa logað í Kína undanfarna daga eftir að myndband var birt af því þegar maður reyndi að nema konu á brott á hóteli þar í landi. Atvikið átti sér stað á gangi hótelsins og þrátt fyrir að margir urðu vitni að árásinni kom enginn konunni til hjálpar um langt skeið.

Árásin átti sér stað þann þriðja apríl, en forsvarsmenn hótelsins hafa beðið konuna afsökunar. Starfsmaður hótelsins kemur upp að manninum þegar hann er að ráðast á konuna. Hún segir að starfsmaðurinn hafi eingöngu beðið manninn um að gera þetta ekki á hótelinu.

Eftir rúmar þrjár mínútur kemur önnur kona til hjálpar og maðurinn flýr. Hann hefur nú verið handtekinn samkvæmt Guardian.

Undanfarin ár hafa þó nokkur tilvik vakið athygli þar sem vegfarendur í Kína koma nauðstöddum ekki til aðstoðar. Milljónir hafa tjáð sig um myndbandið og hefur það fengið rúmlega tvo milljarða áhorfa.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×