Erlent

Powerball-lottóið: Þrír skipta með sér 210 milljörðum króna

Atli ísleifsson skrifar
Þúsundir manna biðu í röðum til að kaupa miða í lottóinu í gær, í þeirri von að vinna þann stóra.
Þúsundir manna biðu í röðum til að kaupa miða í lottóinu í gær, í þeirri von að vinna þann stóra. Vísir/AFP
Að minnsta kosti þrír miðahafar skiptu með sér vinningspottinum í Powerball-lottóinu í Bandaríkjunum í nótt. Vinningspotturinn stóð í 1,6 milljörðum Bandaríkjadala, eða um 210 milljarða króna.

Vinningsmiðar voru seldir í Kaliforníu, Tennessee og Flórída-ríki, en aðstandendur lottósins segja að nokkurn tíma muni taka að kanna hvort að fleiri hafi átt vinningsmiða.

Í frétt BBC segir að síðasti útdráttur hafi verið sá nítjándi í röðinni þar sem aðalvinningurinn gekk ekki út, en miðahafar þurfa að vera með allar sex tölur réttar til að hreppa hnossið.

Þúsundir manna biðu í röðum til að kaupa miða í lottóinu í gær, í þeirri von að vinna þann stóra. Líkur á að ná öllum sex tölum réttum eru metnar 292,2 milljónir á móti einum.

Einn vinningsmiðinn var seldur í 7-Eleven verslun í Chino Hills, úthverfi austur af Los Angeles.

Vinningshafarnir munu skipta með sér vinningnum og geta þeir annað hvort innheimt vinningin með því að fá árlega greiðslu í 29 ár, eða fá hann greiddan í heilu lagi.

Vinningurinn er skattskyldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×