Innlent

Átta frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins eyddu meira en milljón í prófkjörsbaráttu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Fjórtán frambjóðendur í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins hafa nú skilað útdráttum úr uppgjörum vegna kostnaðar við prófkjörsbaráttuna til Ríkisendurskoðunar.
Fjórtán frambjóðendur í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins hafa nú skilað útdráttum úr uppgjörum vegna kostnaðar við prófkjörsbaráttuna til Ríkisendurskoðunar. Myndvinnsla/Garðar
Fjórtán frambjóðendur í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins hafa nú skilað útdráttum úr uppgjörum vegna kostnaðar við prófkjörsbaráttuna til Ríkisendurskoðunar.

Samtals kostuðu framboð þeirra fjórtán yfir 21 milljón króna. Átta frambjóðendur eyddu meira en milljón króna í baráttuna um sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins.

Styrkur frá ömmu

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, fékk framlög upp á rúmlega 3,3 milljónir króna og samtals kostaði prófkjörsbarátta hennar 2.920.010 krónur. Áslaug hlaut bein fjárframlög upp á 27 einstaklingum upp á 1,8 milljónir, framlög í öðrum gæðum upp á 171 þúsund krónur og þá styrkti Elsa Pétursdóttir, amma Áslaugar, hana um 400 þúsund krónur.

Auk þess hlaut Áslaug beina styrki frá 6 fyrirtækjum að andvirði 985 þúsund krónum. Fyrirtækin sem styrktu prófkjörsframboð Áslaugar voru Gravitas slf, Fasteignafélagið Hýsill, Aktis, Skipamiðlarinn, Investis og Steiboch-þjónustan.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, varði alls 2.673.604 krónum í prófkjörsframboð sitt og fékk framlög upp á 2.675.271 krónur. 265 þúsund krónur komu í gegnum bein frjáframlög frá sex einstaklingum en alls studdi 31 fyrirtæki framboð Ásmundar fyrir 2,4 milljónir.

Styrkti sjálfan sig um tæpa milljón

Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður var í prófkjöri í Reykjavík og alls kostaði prófkjörsframboð hans 2.874.241 krónur og hlaut hann framlög fyrir sömu upphæð. Sjálfur varði Guðlaugur Þór 949.241 krónu í prófkjör sitt. Þá hlaut hann 250 þúsund krónur í bein fjárframlög frá þremur einstaklingum og 20 þúsund krónur í öðrum gæðum frá GAP fyrir húsaleigu.

Þá fékk hann styrki frá 11 fyrirtækjum fyrir alls 1.655.000 krónur. Fyrirtækin sem studdu prófkjörsbaráttu Guðlaugs Þórs voru Bláa Lónið, Brekkuhús, Gúmmísteypa Þ. Lárusson, ÍSAM, LK slf, Menja, Profirma, Rauðisandur, Selta, Thule Insvestments og V.S Investment.

Hildur Sverrisdóttir varaþingmaður varði alls 1,2 milljónum í prófkjörsframboð sitt og hlaut framlög fyrir 1,3 milljónir. Sjálf varði hún 300 þúsund krónum í framboðið og hlaut bein fjárframlög frá 9 einstaklingum fyrir samtals 306 þúsund krónur. Þá fékk hún 700 þúsund krónur í styrk frá 5 fyrirtækjum; Frumherja, NL lögfræðiþjónustu slf, Lexíu, 101 BarCo og Fyrsta Stoð slf.

Engin framlög frá einstaklingum

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, hlaut framlög fyrir alls 1.375.000 krónur og eyddi sömu upphæð í prófkjöri flokksins. Sjálfur varði hann 75 þúsund krónum í baráttuna, en hlaut engin bein framlög frá einstaklingum.

Sex fyrirtæki styrktu framboð Jóns um alls 1,3 milljónir króna. Fyrirtækin sem styrktu Jón voru Bjallaból, Fornubúðir, Kaupfélag Skagfirðinga, Hraðfrystihús Hellisands, Tak – Malbik og Verkfræðistofa Gunnvarar.

Prófkjörsframboð Óla Björns Kárasonar, þingmanns Suðvesturkjördæmis, kostaði alls 1.542.763 krónur og hlaut Óli Björn framlög fyrir sömu upphæð. Sjálfur varði hann 912.763 krónum í prófkjörið og hlaut bein fjárframlög frá 2 einstaklingum fyrir 30 þúsund krónur. Þá hlaut hann styrki frá 3 fyrirtækjum fyrir alls 600.000 krónur. Fyrirtækin sem styrktu Óla Björn voru Stilling, Sigla og Þjóðmál.

Tæpar tvær milljónir og afþakkaði sæti

Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrum þingmaður og iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hlaut samtals framlög fyrir 1.975.000 krónur og kostaði prófkjör hennar 1.974.849 krónur. Ragnheiður Elín hlaut bein fjárframlög frá fimm einstaklingum fyrir alls 585 þúsund krónur og styrki frá 13 fyrirtækjum fyrir alls 1.390.000 krónur. Fyrirtækin sem styrktu Ragnheiði Elínu voru Humarsalan, Sæmark-Sjávarafurðir, Lýsi, Dalborg, PMH Consulting slf, Styrmir, Hótel Keflavík, Bílaleigan Geysir, Bláa Lónið, Cargo flutningar, HS Orka, Klapparás og Saltver. Ragnheiður Elín hætti í stjórnmálum eftir að hún hafnaði í fjórða sæti lista flokksins í Suðurkjördæmi.

Prófkjörsbarátta Sigríðar Á Andersen þingkonu kostaði 1.553.966 krónur og fékk hún framlög fyrir samtals sömu upphæð. Sjálf varði Sigríoður 10.966 krónum í framboðið og hlaut bein fjárframlög frá einstaklingum fyrir 693 þúsund krónur. Þá hlaut hún beina styrki frá fjórum fyrirtækjum fyrir alls 850 þúsund krónur. Fyrirtækin sem styrktu Sigríði voru Ursus, Ísól, Hardon og HIBB Holding.

Hinir frambjóðendurnir fimm sem skilað hafa útdrætti úr uppgjöri vegna þáttöku í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins eru Teitur Björn Einarsson, Vilhjálmur Árnason, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, Karen Elísabet Halldórsdóttir og Elín Hirst.

69 frambjóðendur í prófkjörum Pírata hafa skilað yfirlýsingu þess efnis að þeir hafi eytt innan við 400 þúsund krónum í sín framboð og fjórir frambjóðendur Samfylkingarinnar hafa skilað samskonar yfirlýsingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×