Skoðun

Sálfræðiþjónusta er heilbrigðisþjónusta

Eiríkur Örn Arnarson og Jón Sigurður Karlsson og Jónas G. Halldórsson skrifa
Á undanförnum árum og áratugum hafa Sálfræðingafélag Íslands og Félag sérfræðinga í klínískri sálfræði (FSKS) bent ítrekað á mikilvægi þess að auðvelda almenningi að leita sálfræðiþjónustu. Niðurgreiða eigi sálfræðiþjónustu á sama hátt og ýmsa aðra heilbrigðisþjónustu.

Samkeppnisstofnun hefur tvívegis tekið málið til skoðunar, fellt úrskurð og beint þeim tilmælum til stjórnvalda að samið verði við sérfræðinga í klínískri sálfræði á svipaðan hátt og samið hefur verið við geðlækna og aðra sérfræðinga í læknastétt.

Einhverra hluta vegna hafa stjórnvöld ekki farið eftir þessu áliti Samkeppnisstofnunar. Það vekur furðu, þar sem sýnt hefur verið fram á að sérhæfð sálfræðiþjónusta, greining, meðferð og íhlutun dregur á ýmsan hátt úr kostnaði heilbrigðisþjónustu, m.a. með færri innlögnum á sjúkrahús, færri einstaklingum á örorku, auknu vinnuframlagi, minni lyfjanotkun og betri líkamlegri og andlegri heilsu. Þær krónur sem fara í að greiða niður sálfræðiþjónustu við almenning skila sér aftur til ríkisins og meira en það.

Aðferðir sálfræðilegrar greiningar og meðferðar eru vel skilgreindar og árangur þeirra hefur verið staðfestur með rannsóknum. Samkvæmt bestu starfsreglum í heilbrigðisþjónustu er sálfræðileg meðferð fyrsta val við íhlutun, t.d. þegar um er að ræða kvíða, depurð, þunglyndi eða svefnleysi. Gott aðgengi að slíkri þjónustu eru sjálfsögð mannréttindi.

Stuðningur við niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu er vaxandi. Í aðdraganda kosninga voru allir stjórnmálaflokkar sammála um að bæta þyrfti aðgengi almennings að sálfræðiþjónustu. Áður höfðu verkalýðsfélög lýst sömu skoðun.

Þolir ekki bið

Hagsmunasamtök hafa einnig knúið á á undanförnum árum. Sem dæmi má nefna að nú stendur yfir undirskriftasöfnun ADHD samtakanna, Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, Einhverfusamtakanna, Einstakra barna, Landssamtakanna Þroskahjálp, Sjónarhóls – ráðgjafarmiðstöðvar, Tourette-samtakanna á Íslandi og Umhyggju – félags langveikra barna, þar sem stjórnvöld eru hvött til að fella sálfræðiþjónustu undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands. Tengill undirskriftarsöfnunarinnar er https://www.adhd.is/is/um-adhd/frettir/undirskriftasofnun-salfraedithjonusta-er-lika-heilbrigdisthjonusta

Sálfræðiþjónusta stofnana, þ.m.t. sálfræðiþjónusta á heilsugæslustöðvum, er afar mikilvæg, en fjarri fer að hún nái til allra þeirra sem leita sálfræðiþjónustu. Niðurgreidd sérhæfð sálfræðiþjónusta á stofum sálfræðinga er mikilvæg fyrir almenning, þjóðhagslega hagkvæm og þolir ekki bið. FSKS leitar samstarfs um þróun þessara mála.

 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Vá!

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Sjá meira


×