Skoðun

Hættuleg heimsókn?

Þórir Stephensen skrifar
Mikið er nú deilt um, hvort leyfa eigi heimsóknir skólabarna í kirkju á aðventunni. Sagt er, að þar sé stundað trúboð. Ég efast um, að þeir, sem mótmæla hæst og mest, hafi sjálfir komið í slíkar heimsóknir.

Ég er fjölmenningarsinni og á þá von, að fólk af mismunandi trúarbrögðum, geti búið hér í sátt og samlyndi. Það er a.m.k. algjör skylda okkar kristinna manna, að sýna bræðrum okkar og systrum sama kærleika og við viljum að þau sýni okkur. Þar skipta trúarbrögð, þjóðerni, litarháttur og kynhneigð engu máli. Við erum öll eitt, börn sama skapara.

Í sautján ár tók ég á móti skólabörnum í Dómkirkjunni á aðventu. Ég var þar einn, enginn organisti og enginn kór. Við sungum í upphafi hluta af sálminum í Betlehem er barn oss fætt og svo Heims um ból í lokin. Svo voru jólafrásagnir þeirra Lúkasar og Mattheusar endursagðar og útskýrðar. Mikil áhersla var lögð á kærleiksboðskapinn, sem Kristur var fæddur til að boða og hve nauðsynin væri mikil, að við, bæði börn og fullorðnir, reyndum að vera öllum góð, sérstaklega, þar sem neyð og fátækt ríktu og umfram allt þar sem fólk liði þjáningar vegna styrjalda. Grundvöllur þessa er, að allt þetta fólk er hluti af okkar fjölskyldu. Í þessu fundum við líka uppruna og tilgang jólagjafanna.

Svo var kirkjan skoðuð, skírnarfontur Thorvaldsens, eitt fegursta listaverk í íslenskri kirkju. Við töluðum einnig um hina mismunandi hluta kirkjuhússins, kórinn, kirkjuskipið, skrúðhúsið, sem einu sinni var slökkvistöð, turninn og klukkurnar, sem alltaf hringja inn jólin í útvarpinu.

Á rúmum hálftíma getur aldrei orðið um neitt trúboð að ræða. Til þess þarf lengra og hnitmiðaðra ferli. Þetta var ekki síst menningarheimsókn, til þess stíluð að gera börnunum auðveldara að skilja jólin og njóta þeirra sem slíkra. Eina bæn leyfði ég mér að fara með. Ég notaði hana mikið í sunnudagaskólanum og bað börnin að sameinast mér í þessum orðum:

„Góði faðir, gættu mín,

gleddu litlu börnin þín,

Gefðu pabba gæfu og traust.

Ó, Guð, að mamma verði hraust.

Góði Guð að þessu sinni

gæt þú vel að farsæld minni.“

Það kemur mér mjög á óvart, ef slík heimsókn hefur haft neikvæð áhrif á fjölmenninguna í landinu.

 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Vá!

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Sjá meira


×