Menning

Listin að leggja sig, drekka kampavín og verða leiður

Magnús Guðmundsson skrifar
Hlynur Helgason, lektor í listfræði, flytur á morgun fyrirlestur um list Ragnars Kjartanssonar.
Hlynur Helgason, lektor í listfræði, flytur á morgun fyrirlestur um list Ragnars Kjartanssonar. Visir/Vilhelm
Eitt af hundrað og fimmtíu erindum á tæplega fjörutíu málstofum Hugvísindaþings, árlegrar ráðstefnu Hugvísindastofnunar, flytur Hlynur Helgason, lektor í listfræði, um guðlega sjálfsmynd myndlistarmannsins Ragnars Kjartanssonar. Það er því af nægu að taka af fræðandi og skemmtilegum viðburðum þessa tvo daga sem ráðstefnan stendur í dag og á morgun. Hlynur tekur undir að framboðið sé svo sannarlega mikið og það sé um að gera fyrir fólk að kynna sér dagskrána og finna eitthvað við sitt hæfi.

Í fyrirlestri sínum ætlar Hlynur að skoða hvernig myndlistarmaðurinn Ragnar Kjartansson hefur byggt upp sjálfsmynd sína í gegnum tíðina. „Hvernig hann hefur notað gjörninga þar sem hann kemur sjálfur fyrir á sterklegan hátt í raun allt frá upphafi ferilsins. Ég byrja á því að skoða sem dæmi hvernig hann bar sig í vídeóum með Trabant, sem er svona aukahlutur sem hann hefur verið í. Skoða hvernig hann setur sig þar fram sem sætan ljóshærðan rokkarastrák. Í framhaldinu skoða ég hvernig hann sýnir sig í þessum verkum sem hann hefur gert á fimm ára fresti sem heita Ég og móðir mín, þar sem hann spilar á endurtekninguna með sína eigin ímynd. Þar er hann sonur sem er í ímyndunarstíl forsmáður af móður sinni í þessum leik þar sem hún hrækir á hann ítrekað.

Ragnar Kjartansson: Guð, 2007. Vídeóverk á einum skjá, 30 mínútur. Útsetning og hljómsveitarstjórn: Davíð Þór Jónsson. Framleitt af Thyssen-Bornemisza Art Contemporary, Vín og Nýlistasafninu í Reykjavík. Birt með leyfi listamannsins og Luhring Augustine, New York & i8, Reykjavík.Ljósmynd: Rafael Pinho.
Guð og Schumann

Þetta er svona upptakturinn að aðalefninu sem er vídeóverk sem hann sýndi í Nýlistasafninu árið 2007. Þar vinnur hann með endurtekningar þar sem hann syngur á mjög dramatískan hátt endurtekið við hljómsveitarundirleik Sorrow Conquers Happiness. Þetta vídeóverk ber nafnið Guð og þar er hann búinn að setja sjálfan sig sem listamann í guðalíki. Þetta er dálítið í stíl við Trabant og gert á sama tíma. Þarna er ímynd listamannsins sem góðs og jákvæðs afls en á móti kemur verk sem hann gerði ári síðar á Ítalíu og heitir The Schumann Machine og ég fer talsvert mikið út í það. Við getum sagt að í Guðsverkinu sé hann að bjóða upp á nokkurs konar Appolló-týpu ef við notum Nietzsche sem bakgrunn. Þar sem Nietzsche talar um Appolló-virknina sem eldri listamannsímynd og síðan birtist þessi díonýsíska eða Bakkusar-týpa og það er þessi síðarnefnda sem einmitt birtist svo í The Schumann Machine.

Doktor Jekyll og mister Hyde

Þar er hann í tvær vikur að flytja stöðugar endurtekningar á hluta af Dichterliebe eftir Robert Schumann og er að kljást við það með Davíð Þór Jónssyni píanóleikara. Þar eru þeir að drekka kampavín og reykja og að vissu leyti er þetta pólitískasti performans Ragnars þarna 2008 því hann er að fjalla um þessa djúpu undiröldu í samfélaginu. 

Þarna er hann að fjalla um hina bóhemísku ímynd listamannsins, nokkuð sem hann tekur síðan fyrir aftur í Feneyjum en þetta var að vissu leyti sterkara í Schumann Machine af því að þar eru þeir að vinna með þetta sama þema. Verða leiðir, leggja sig, fá sér kampavín, örlítið meiri kavíar, mjög skemmtileg áhersla á þessa miklu endurtekningu sem verður áhugaverð og leiðinleg en áhugaverð í senn. Þetta er svona doktor Jekyll og mister Hyde ímynd sem Ragnar byggir upp en verður samt að sameiginlegum persónuleika sem ég legg til að hafi gert Ragnar að svona heillandi listamanni. Það er þetta sem Ragnar lagði bókstaflega á þessum árum sem hefur gefið honum þessa möguleika á alþjóðlegum vettvangi.“

Ragnar Kjartansson: Schumann Machine, 2008. Ásamt Davíð Þór Jónssyni. Manifesta 8, Rovereto, Ítalíu. Gjörningur í 8 klukkustundir. Birt með leyfi listamannsins og Luhring Augustine, New York & i8, Reykjavík.
Rokkari myndlistarinnar

Þrátt fyrir þessi einkenni í verkum Ragnars sé ekki endilega erfitt að greina á milli mannsins og listamannsins. „Ég held að í raun og veru sé Ragnar einn af þessum listamönnum sem fylgir forverum sínum eins og Magnús Pálsson hefði sagt: Þú greinir ekkert á milli listamannsins og verksins. Listamaðurinn býr til samtal og Ragnar í raun og veru fylgir því. Hann spilar svolítið á að vera þessu jákvæði bjarti náungi sem síðan leyfir sér að djamma dálítið. Við höfum líka dæmi eins og þegar hann flutti inn leikhússtúku Hitlers og ætlaði að setja hana saman en fékk á sig mikla gagnrýni. Ákvað svo, eftir að hafa ráðfært sig við móður sína, að gera það ekki og sendi frá sér yfirlýsingu.

Þetta er svolítið eins og rokkímyndin. Þú gerir ekki greinarmun á rokkaranum og rokkinu og hann er búinn að flytja það yfir í myndlistina. Við erum með myndlistarmenn á svipuðu róli, eins og Cindy Sherman, þar sem ímynd listamannsins og konan á bak við er algjört kamelljón og þú veist aldrei hvort er hvað. Þetta gerir Ragnar áhugaverðan því hann heldur þessu sem er í spennu.“

Þannig er greinilega af nægu forvitnilegu að taka varðandi list Ragnars og rétt að hvetja fólk til þess að skella sér á Hugvísindaþing. Fyrirlestur Hlyns verður á laugardaginn kl. 10 í stofu 225 í aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Uppfært klukkan 14:10: Í upphaflegri útgáfu þessarar fréttar var sagt að fyrirlestur Hlyns væri klukkan 12 en það rétta er að málstofan hefst klukkan 10. Þetta hefur nú verið leiðrétt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.