Skoðun

Raforkuflutningskerfi: Þungstíga Ballerínan

Magnús Rannver Rafnsson skrifar
Kolefnisfótspor er löngu orðið staðlað hugtak í umhverfisfræðum og segir með skýrum hætti til um mælanleg áhrif tiltekinnar framkvæmdar, framleiðslu eða vöru á umhverfi sitt. Við reiknum út í þessu samhengi magn mengunarinnar sem skilin er eftir í umhverfinu og getum þannig mælt umhverfisgæði tiltekinnar vöru eða framleiðslu. Eðli málsins samkvæmt eru umhverfisgæðin meiri eftir því sem magn mengunarinnar sem ferlið getur af sér er minna. Þetta er meðal annars gagnlegt verkfæri þegar óábyrgir aðilar stíga fram með yfirlýsingar um umhverfisgæði verka sinna sem í reynd standast ekki skoðun.

Nýlega kynnti Landsnet til leiks nýja gerð háspennumastra. Möstrin hafa fengið nafnið „Ballerína“ og eru kynnt sem afrakstur margra ára rannsóknar og þróunarvinnu sem kostaði mikla fjármuni, samkvæmt orðum þeirra Nils Gústavssonar og Sverris Jan Norðfjörð hjá Landsneti. Ekki hefur verið upplýst um hve miklu fjármagni varið hefur verið í þetta verkefni; við óskum hér með eindregið eftir þeim upplýsingum. Hins vegar hefur forstjórinn sjálfur tilkynnt að hér sé um að ræða „nýja kynslóð háspennumastra“ á Íslandi.

Dýpstu kolefnisfótspor sem um getur

Ballerínur eins og við þekkjum þær eru léttar í spori og ásýnd og svífa fyrirhafnarlaust um umhverfi sitt – leiksviðið. Það munu ballerínur Landsnets þó aldrei gera, enda einhver þyngsti klumpur af stáli sem stíga mun jörð á Íslandi, ef fer sem horfir. Sú staðreynd að klumpur þessi verði fluttur í heilu lagi frá útlöndum – svo virðist sem Landsnet ætli í alvörunni að flytja inn 30 metra löng mannvirki í heilu lagi erlendis frá – mun hvorki auka á hagkvæmni gjörningsins eða umhverfisvænleika. Þessi meinta ballerína verður svo þungstíg að hún mun skilja eftir sig í náttúrunni einhver dýpstu kolefnisfótspor sem um getur í sögu raforkuflutningskerfisins. Ekki grynnri verða sporin á hagkerfinu. Þetta er afrakstur margra ára rannsóknar og þróunarvinnu sem kostaði mikla fjármuni.

Íslenskt landslag og íslensk náttúra er leiksvið, leiksviðið okkar sem við eigum saman, þ.e. síðast þegar ég vissi. Ég verð þó að viðurkenna, að með hverju misserinu sem líður og eftir því sem fundum og ráðum um íslenska náttúru fjölgar, þeim mun minna hef ég á tilfinningunni að svo sé. Ef ég væri stjórnandi ballettflokks og réði til mín fylkingu af klunnalegum ballerínum í yfirþyngd til þess að þramma og trampa um gólf leikhússins, undir því yfirskyni að um væri að ræða ballett, yrði mér gert að taka pokann minn umsvifalaust. Ballettdans á að vera fisléttur og leikandi. Ef ég ætti leikhúsið einn, gæti ég jú gert nokkurn veginn það sem mér sýndist hverju sinni, en á endanum yrði ég að taka tillit til vilja fólksins – samfélagsins – ef ég ætlaði ekki að valda leikhúsinu alvarlegu tjóni. Tómt leikhús er ekki mikils virði. Fyrir hvern er hið nýja íslenska raforkuflutningskerfi byggt?

Á skjön við umræðu um umhverfismál

Þessi sótsvörtu kolefnisspor ballerínanna þungstígu eru algjörlega á skjön við umræðu um umhverfismál, algjörlega á skjön við niðurstöður umhverfisráðstefnunnar COP21 í París og í svo gott sem fullkomnu ósamræmi við kröfur íslensks almennings um hagkvæmni í fjárfestingum. Er þetta yfirhöfuð í samræmi við raforkulög? Hvernig?

Þá er nafngiftin „Ballerína“ athyglisverð, enda flestum sem með þessum málum fylgjast kunnugt um íslenska nýsköpunarfyrirtækið Línudans ehf. (www.facebook.com/greengrids). Línudans hefur frá árinu 2008 unnið að þróun fisléttra umhverfisvænna háspennumastra sem eru á sama tíma mjög hagkvæmur valkostur fyrir raforkuflutning á hárri spennu. Sú staðreynd að Landsnet stígi nú fram með svokallaða nýja kynslóð háspennumastra sem einnig fær skírskotun í dans, líkt og Línudans hefur gert í sínum verkefnum frá upphafi – ekki síst til markaðssetningar og áherslu þeirrar nýju hugmyndafræði sem fyrirtækið stendur fyrir – er ekki bara illa gert heldur endurspeglar mikla og átakanlega fátækt hlutaðeigandi.

Við vitum að það er ekki fallegt að gera hugmyndir og hugmyndafræði annarra að sínum, siðferðislega rangt og óheiðarlegt. Öllu verra er ef hin nýja kynslóð háspennumastra reynist bæði menga meira en áður hefur sést á þessu sviði auk þess að vera einhver dýrasta mastralausn sem komið hefur fram á sjónarsviðið á Íslandi. Það er alls ekki gott fyrir hækkandi hitastig á jörðinni og síður en svo gott fyrir íslenskan efnahag. Hver er ballettstjóri?

Af tillitssemi við íslenska skattgreiðendur og þá fjölmörgu aðila sem fjárfest hafa tíma og fjármagni í verkefnum Línudans ehf., íslenska ríkið þar með talið, þá er rétt að óska eftir skýringum á þessari niðurstöðu margra ára rannsóknar og þróunarvinnu Landsnets sem kostað var til með fjármunum Íslendinga. Hve miklu hefur verið varið í þetta verk sem forstjórinn sjálfur Guðmundur Ingi Ásmundsson kynnti fyrir okkur á haustdögum?

Fyrir hönd íslenskrar náttúru og umhverfisþenkjandi fólks; hve margar þúsundir tonna CO2 verða skildar eftir í umhverfinu.

Óskað er eftir skýrum tölulegum upplýsingum.

 




Skoðun

Sjá meira


×