Skoðun

Grái herinn snýst til varnar

Erna Indriðadóttir skrifar
Það ríkja fordómar á Íslandi gagnvart eldra fólki. Rúmlega 38.000 manns eru í dag komnir á eftirlaunaaldur, eða orðnir 67 ára og eldri. Og hvað verða þeir þá? Ellilífeyris„þegar“ takk fyrir eða jafnvel bara lífeyris„þegar“. En fyrst keyrir nú um þverbak þegar rætt er um þetta fólk sem „bótaþega“.

Eldra fólk er ekki bótaþegar Þessi orð fela í sér að menn séu þiggjendur, þiggi fé af ríki eða lífeyrissjóðum. Hvernig í ósköpunum það vildi til, að fólk sem vann hörðum höndum að uppbyggingu þjóðfélagsins og greiddi sín gjöld og skatta til ríkisins og seinna í lífeyrissjóði, varð allt í einu þiggjendur er mér hulin ráðgáta. Þetta er einfaldlega fólk sem var búið að leggja inn fyrir eftirlaununum sínum.

Fólk á dvalarheimilum er ekki vistmenn

Þegar menn verða enn eldri og þurfa að leggjast inn á dvalar- eða hjúkrunarheimili, tekur ekki betra við. Þá verða þeir jafnvel „vistmenn“. Rétt eins og stundum talað var um vistmenn í fangelsum, á Kleppi eða á Kópavogshæli á meðan þær stofnanir voru og hétu. Sjálft orðið vísar til fólks sem ræður sér ekki sjálft eða getur ekki séð um sig sjálft og er stundum notað um þá sem hafa gerst brotlegir við lög samfélagsins. Hvorugt á við um það fólk sem býr á dvalarheimilum eða hjúkrunarheimilum. Það er hvorki afbrotamenn né ófært með öllu um að ráða sér sjálft. Það eru karlar og konur sem búa á eigin heimilum.

Búist er við að fólki 67 ára og eldra fjölgi um 65% fram til ársins 2030 og verði þá 63.000. Þetta er fólkið sem hefur byggt upp það samfélag sem við búum við í dag og skilað af sér blómlegra búi en það tók við fyrir 60-70 árum. Þetta er ekki bónbjargarfólk sem „þiggur“ lífeyri frá ríki og lífeyrissjóðum og búi það á dvalarheimilum, sem fer raunar ört fækkandi í landinu, er það ekki „vistmenn“ þar heldur íbúar. Ég skora á fjölmiðla og aðra að útrýma þessum orðum úr umræðum um málefni eldri kynslóðarinnar í landinu. Þau bera vitni fordómum sem eiga ekki að líðast.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 21. mars.




Skoðun

Sjá meira


×