Innlent

Gunnar Bragi í Mið-Austurlöndum

Samúel Karl Ólason skrifar
Gunnar Bragi og Benjamin Netanyahu.
Gunnar Bragi og Benjamin Netanyahu. Mynd/Utanríkisráðuneyti Ísrael
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, er nú staddur í Mið-Austurlöndum. Hann hóf ferð sína um svæðið í gær og fundaði í dag með Benjamin Netanyahu, forsætis- og utanríkisráðherra Ísrael. Hann mun einnig fara til Palestínu og Jórdaníu í vikunni.

Samkvæmt tilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu fór Gunnar Bragi „meðal annars yfir afstöðu Íslands til deilu Ísraels og Palestínu og ítrekaði mikilvægi þess að viðræður yrðu hafnar að nýju með tveggja ríkja lausn að leiðarljósi. Fordæmdi ráðherra ofbeldi og mannfall óbreyttra borgara á báða vegu.“

Einnig ræddu þeir tvíhliða samskipti Íslands og Ísrael sem og gagnkvæman vilja til að styrkja þau frekar. Meðal annars með því að gera loftferðasamning, fjárfestingasamning, tvísköttunarsamning og samstarfi á sviði nýsköpunar.„Staða mála í Miðausturlöndum, þar með talið. ástandið í Sýrlandi, var sömuleiðis til umfjöllunar, auk þess sem Gunnar Bragi varpaði ljósi á stöðu efnahagsmála á Íslandi og ræddi öryggishorfur í Evrópu.“

Þá fundaði Gunnar Bragi einnig með Tzipi Hotovely, varautanríkisráðherra Ísrael, um deilu þeirra við Palestínu og hugsanleg úrræði lausnar. Hann ræddi þar að auki við Yair Lapid, einn af leiðtogum stjórnarandstöðunnar og farmann Miðjuflokksins. Þeir ræddu einnig um bætt samskipti Íslands og Ísrael.

Á morgun fer ráðherrann til Palestínu og fundar með ráðamönnum í Ramallah. Hann mun einnig kynna sér verkefni sem Ísland styður á Vesturbakkanum og funda með yfirmönnum stofnana Sameinuðu þjóðanna á svæðinu.Síðar í vikunni heldur utanríkisráðherra til Jórdaníu þar sem hann mun kynna sér aðstæður Zaatari flóttamannabúðunum og funda með Nasser Judeh, utanríkisráðherra landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×