Fótbolti

Messi hættur við að hætta með Argentínu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Messi súr í bragði eftir tap Argentínu í úrslitaleiknum í sumar.
Messi súr í bragði eftir tap Argentínu í úrslitaleiknum í sumar. vísir/getty
Lionel Messi mun halda áfram að spila með argentínska landsliðinu í knattspyrnu þrátt fyrir að hann hafi gefið það út í sumar að hann myndi hætta því.

Messi sagði í júní að hann myndi ekki spila aftur fyrir Argentínu eftir að liðið tapaði fyrir Síle í úrslitaleik Suður-Ameríkubikarsins.

Hann gaf svo frá sér tilkynningu í gær þar sem hann óskaði eftir því að spila áfram með landsliðinu, en hann sagði að miklar tilfinningar hafi orðið sér að voða kvöldið eftir úrslitaleikinn.

Edgardo Bauza tók við Argentínu á dögunum, en Gerardo Martino var þjálfari liðsins áður. Messi segir að það þurfi að taka til í argentískum fótbolta.

„Það er fullt af hlutum sem þarf að laga í argentískum fótbolta, en ég vel frekar að hjálpa að innan og ekki að gagnrýna út á við," segir í tilkynningu frá Messi. Hann þakkar stuðninginn:

„Ég sendi þakkarkveðjur til þeirra sem styðja mig í að spila áfram fyrir Argentínu. Vonandi getum við afrekað eitthvað sem við getum fagnað saman bráðlega."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×