Enski boltinn

Ramsey: Svekkjandi tímabil því við misstum af góðu tækifæri

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aaron Ramsey.
Aaron Ramsey. vísir/getty
Aaron Ramsey, miðjumaður Arsenal, segir í viðtali við Sky Sports að leiktímabilið í ensku úrvalsdeildinni sem lýkur á sunnudaginn hafi verið svekkjandi.

Honum finnst að Arsenal hafi glutrað fullkomnu tækifæri að verða Englandsmeistarar í fyrsta sinn í tólf ár þar sem mörg hinna stóru liðanna voru ekki að spila vel.

Skytturnar voru í efsta sæti um jólin en unnu síðan aðeins fjóra leiki af næstu tólf og horfðu upp á Leicester fagna Englandsmeistaratitlinum á dögunum.

„Þetta tímabil er búið að vera virkilega svekkjandi þar sem hin stóru liðin voru ekki að spila vel en við nýttum okkur það ekki. Okkur líður eins og við höfum misst af góðu tækifæri. En þetta er staða okkar í dag og við verðum að sætta okkur við hana,“ segir Ramsey í viðtali við Sky Sports.

„Ég tek ekkert af Leicester, það kláraði þetta. En ég er viss um að við mætum sterkari til baka á næstu leiktíð. Það verður áhugaverð leiktíð og vonandi getum við þá staðið uppi sem meistarar.“

Arsenal fór illa að ráði sínu í mörgum leikjum á tímabilinu eins og á lokasprettinum þar sem nokkur jafntefli gerðu út af við liðið í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn.

„Við runnu á rassinn nokkrum sinnum á mikilvægum augnablikum alla leiktíðina. Það er eitthvað sem við þurfum að laga fyrir næsta tímabil,“ segir Aaron Ramsey.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×