Erlent

Námsmaður myrtur með sveðju í Bangladesh

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónn á vettvangi árásarinnar.
Lögregluþjónn á vettvangi árásarinnar. Vísir/AFP
Hinn 28 ára gamli Nazimuddin Samad var í nótt myrtur með sveðjum í Bangladesh. Hann var þekktur aðgerðasinni og bloggaði um trúfrelsi í landinu. Lögreglan segir að þrír menn hafi ráðist á hann með sveðjum og svo skotið hann til bana, en mennirnir eru taldir vera íslamistar.

Þetta er í minnst fimmta sinn sem ráðist er á bloggara af þessu tagi með sveðjum og þeir myrtir í ár og í fyrra. Ekki liggur þó fyrir hverjir standa að baki árásunum. Mennirnir voru allir á lista yfir „trúlausa“ bloggara sem samtök íslamista skrifuðu árið 2013, samkvæmt BBC.

Samad var á leið heim úr skóla, þar sem hann var við nám í lögfræði þegar ráðist var á hann út á götu. Vitni sögðu Reuters fréttaveitunni að árásarmennirnir hefðu kallað „Allahu Akbar“ eða „guð er mikill“.

Undanfarin ár hafa ofbeldisfullar árásir verið tíðar og hafa meðlimir Íslamska ríkisins lýst yfir ábyrgð á einhverjum þeirra. Þar á meðal morðum á lögregluþjóni, presti og hjálparstarfsmanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×