Erlent

Hálf milljón barna í hættu í Mosúl

Atli Ísleifsson skrifar
Borgin er sú næststærsta í Írak og eitt helsta vígi ISIS og má því búast við mikilli hörku í baráttunni um borgina.
Borgin er sú næststærsta í Írak og eitt helsta vígi ISIS og má því búast við mikilli hörku í baráttunni um borgina. Vísir/AFP
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, hefur varað við að meira en hálf milljón barna og fjölskyldur þeirra í íröksku borginni Mosúl verði í mikilli hættu næstu vikurnar.

Írakskar og kúrdískar öryggissveitir sækja nú að borginni þar sem þær reyna að taka hana aftur úr höndum liðsmanna ISIS sem hafa þar ráðið lögum og lofum í rúm tvö ár.

Borgin er sú næststærsta í Írak og eitt helsta vígi ISIS og má því búast við mikilli hörku í baráttunni um borgina.

Í tilkynningu frá UNICEF segir að börn sem búsett séu í Mosúl hafi þegar þurft að þola gríðarlega erfiðleika seinustu tvö árin.

„Fjöldi barna gæti nú þurft að flýja heimili sín, orðið innlyksa á milli víglína á átakasvæðinu eða orðið fyrir beinum árásum. Fjöldi barna og fjölskyldna hefur þegar flúið frá borginni. 

UNICEF kallar eftir því að allir hlutaðeigandi aðilar í átökunum um Mósúl virði alþjóðleg mannúðarlög og verndi börn. Genfarsamningarnir og viðbætur við þá kveða skýrt á um að aðilar átaka skuli til dæmis gera greinarmun á almenningi og hermönnum - og þeir skulu beina aðgerðum sínum að hernaðarlegum skotmörkum eingöngu. Bannað er að skjóta á skóla, sjúkrahús, leikskóla og leikvelli.

Undanfarna mánuði hefur UNICEF einnig undirbúið neyðaraðstoð fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Við erum tilbúin með verulegt magn hjálpargagna sem mun nýtast um 150 þúsund manns og stefnum á að auka það í 350 þúsund á næstu dögum og vikum. Sjálboðaliðar eru einnig í viðbragðsstöðu, tilbúnir að annast börn og veita þeim sálræna aðstoð. Starfsfólk UNICEF vinnur nú allan sólarhringinn til að tryggja það að hvar sem börnin verða, verði þau ekki ein,“ segir í tilkynningunni.

Nánar má lesa um málið á vef UNICEF.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×