Erlent

Ríkir lifa lengur en fátækir samkvæmt rannsókn

Þorgeir Helgason skrifar
Gríðarlegur munur er á lífslíkum þeirra tekjuhæstu og þeirra tekjulægstu.
Gríðarlegur munur er á lífslíkum þeirra tekjuhæstu og þeirra tekjulægstu. Vísir/Getty
Karlar sem að tilheyra topp eitt prósentinu lifa að meðaltali fimmtán árum lengur en karlmenn sem tilheyra lægsta eitt prósentinu. Þetta kemur fram í niðurstöðum vísindamanna, sem kynntar voru í gær í Tímariti bandarísku heilbrigðissamtakanna.

Hagfræðiprófessorinn Raj Chetty við Stanford háskóla í Bandaríkjunum leiddi teymi vísindamanna sem að rannsakaði skattskýrslur Bandaríkjamanna frá árunum 1999 til 2014. Þau gögn báru þeir saman við mannfallsgögn Almannatryggingastofnunar Bandaríkjanna.



Samkvæmt gögnunum var gríðarlegur munur á lífslíkum karla miðað við tekjur þeirra. Mestur var munurinn fimmtán ár, þegar bornar voru saman lífslíkur tekjuhæstu og tekjulægstu einstaklinganna. Munurinn á lífslíkum kvenna var einnig talsverður, en konur sem að tilheyra topp eitt prósentinu mega gera ráð fyrir því að lifa tíu árum lengur en konur sem að tilheyra lægsta eitt prósentinu.

Niðurstöðurnar gáfu einnig til kynna að munurinn á lífslíkum hópanna hefur aukist á síðustu árum. Á tímabilinu 2001 til 2014 hafa lífslíkur karlmanna aukist um 2,3 ár og kvenna um 2,9, ár, séu þau í hópi topp fimm prósent tekjuhæstu einstaklinganna. Hins vegar hafa lífslíkur þeirra tekjulægstu aukist lítið á sama tímabili, hjá körlum hafa þær aukist um fjóra mánuði og hjá konum aðeins um tvær vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×