Enski boltinn

Klinsmann ánægður með að Bradley sé orðinn stjóri Gylfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klinsmann og Joachim Löw.
Jürgen Klinsmann og Joachim Löw. Vísir/EPA
Jürgen Klinsmann, landsliðsþjálfari Bandaríkjanna, segir það vera frábærar fréttir að Bob Bradley hafi fyrstur Bandaríkjamanna fengið tækifæri til að stýra liði í ensku úrvalsdeildinni.

Bob Bradley tekur við Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Swansea City af Ítalanum Francesco Guidolin sem var rekinn á mánudaginn. Gylfi verður því kominn með nýjan knattspyrnustjóra þegar hann snýr til baka eftir landsleikina á mót Finnlandi og Tyrklandi.

Swansea City vann fyrsta leik tímabilsins en hefur ekki unnið leik síðan. Liðið er komið niður í sautjánda sæti deildarinnar.

„Bob á skilið að fá þetta tækifæri. Það er frábært að sjá það að það séu til eigendur í ensku úrvalsdeildinni sem eru tilbúnir að veðja á amerískan þjálfara,“ sagði Jürgen Klinsmann í samtali við BBC.

„Það er til fullt af afar góðum amerískum þjálfurum sem geta þjálfað utan Bandaríkjanna,“ bætti Klinsmann við.

Bob Bradley þjálfaði bandaríska landsliðið frá 2006 til 2011 en hefur síðan þjálfað í Egyptalandi, Noregi og nú síðast í Frakklandi.

Bradley var ráðinn í stjórastarfið hjá Swansea frekar en menn eins og Ryan Giggs, Paul Clement og  Marcelino sem voru allir orðaðir við stöðuna.

„Bob fór erfiðu leiðina. Það hefur verið tilkomumikið að sjá það hvar hann hefur reynt fyrir sér í þjálfuninni. Hann var þar óhræddur að takast á við ólíka menningaheima, ólík tungumál og óvenjulega aðstæður. Hann á skilið að fá þetta tækifæri og ég vona að hann fá allan mögulegan stuðning, “ sagði Klinsmann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×