Skoðun

Óásættanlegur málflutningur forseta ASÍ

Þórður Hjaltested skrifar
Kennarar hafa fengið sitt,“ var haft eftir Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ, þegar hann var spurður út í yfirstandandi kjarabaráttu grunnskólakennara. Með öðrum orðum – kröfur kennara eru óraunhæfar og engin ástæða til að leiðrétta laun þeirra á þessari stundu.

Þarna stingur Gylfi enn einu sinni höfðinu í sandinn og neitar að horfast í augu við stöðu kennarastéttarinnar og skólastarfs í landinu. Kennarastéttin eldist hratt og allt of fáir kennarar útskrifast úr háskólum landsins til að fylla í skarð þeirra sem hætta.

Álagið á starfandi kennara er allt of mikið, sem skilar sér í auknum veikindum og atgervisflótta. Verði ekkert að gert blasir við alvarlegur kennaraskortur innan fárra ára eða jafnvel strax eftir áramót miðað við fjölda þeirra sem þegar hafa sagt upp störfum eða hyggjast gera það á næstu dögum. Við þessu þarf að bregðast strax því það er með öllu ólíðandi að eitt einasta barn fái ekki þá menntun sem það á skilið, hvað þá heilu kynslóðirnar eins og í stefnir.

Það er á ábyrgð ráðamanna að tryggja skólastarf til framtíðar. Það verður aðeins gert með því að hækka laun og bæta starfsaðstæður kennara. Það er algjörlega óásættanlegt hversu illa fimm ára háskólamenntun kennara er metin til launa. Það er ekkert eðlilegt við að þurfa að treysta á að ungt fólk velji kennarastarfið af hugsjón og sé tilbúið að sætta sig við að geta ekki lifað af launum sínum. Það sýnir sig líka að unga fólkið segir einfaldlega nei – og hópast þess í stað í nám í lögfræði, viðskiptafræði og hagfræði. Okkur vantar kennara til að mennta komandi kynslóðir og við því þurfa ráðamenn að bregðast við strax.

Ég verð að viðurkenna að það er, sannast sagna, afar lýjandi að þurfa aftur og aftur að taka slaginn við forystu systursamtaka okkar á vinnumarkaði þegar kennarar setja fram réttmætar og vel rökstuddar kröfur sem landsmenn taka undir. Menntun barna okkar og barnabarna er í húfi.

 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Vá!

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Sjá meira


×