Erlent

Stór hluti listaverksins Nimis á Skáni brann

Atli Ísleifsson skrifar
Lögreglu barst tilkynning um eldinn um kvöldmatarleytið í gær og er ljóst að um íkveikju sé að ræða.
Lögreglu barst tilkynning um eldinn um kvöldmatarleytið í gær og er ljóst að um íkveikju sé að ræða. Vísir/AFP
Stóri hluti Nimis, listaverks sænska listamannsins Lars Vilks á Skáni, varð eldi að bráð í gærkvöldi.

Sydsvenskan segir frá því að um fjórðungur verksins hafi brunnið til kaldra kola, fyrst og fremst sá hluti verksins sem stendur næst sjávarmálinu.

Lögreglu barst tilkynning um eldinn um kvöldmatarleytið í gær og er ljóst að um íkveikju sé að ræða. Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins.

Listaverkið er að finna á torsóttum stað á norðvesturströnd Skánar á náttúruverndarsvæðinu Kullaberg. Áætlað er að um þrjátíu þúsund manns sæki staðinn á ári hverju.

Vilks hóf smíði verksins árið 1980 og hefur í raun unnið að smíði þess æ síðan. Það er unnið úr rekavið og timbri með turnum sem sumir standa 25 metra upp í loftið.

Verkið er mjög umdeilt enda er það smíðað án leyfis frá sænskum yfirvöldum. Nimis var á árunum 1984 til 1986 í eigu þýska listamannsins Joseph Beuys og síðar í eigu búlgarska listamannsins Christo.

Vilks sjálfur er líkt og listaverkið mjög umdeildur. Hann var einn ræðumanna á fundi um tjáningarfrelsi í Kaupmannahöfn í febrúar 2015 þegar maður að nafni Omar Abdel Hamid El-Hussein réðst þar inn í þeim tilgangi að bana Vilks og hóf skothríð með þeim afleiðingum að einn maður fórst. Vilks komst lífs undan. 

Nokkrum tímum síðar myrti El-Hussein öryggisvörð fyrir utan bænahús gyðinga í borginni. El-Hussein fórst svo nokkru síðar eftir skotbardaga við lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×