Fótbolti

Stjarna í bandarísku deildinni hegðaði sér eins og Hulk | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sebastian Giovinco.
Sebastian Giovinco. Vísir/Getty
Hvað gerir þú þegar ekkert gengur upp fyrir framan markið í leik eftir leik? Ítalski framherjinn Sebastian Giovinco kom með sína útgáfu af því um helgina í leik Toronto FC og Chicago Fire í MLS-deildinni í Bandaríkjunum.

Það var komið fram á 75. mínútu leiksins og Sebastian Giovinco gerði mjög vel í að koma sér í færi í teignum en skotið hans fór framhjá eins og öll hin skotin hans í undanförnum leikjum.

Við þetta sauð upp úr hjá Sebastian Giovinco og hann greip í keppnistreyjuna sína og reif hana í tvennt eins og ofurhetjan Hulk. Það sást minna af þrútnum vöðum og græna litnum en viðbrögð Sebastian Giovinco hafa vakið mikla athygli á netinu.

Sebastian Giovinco átti frábært tímabil í fyrra þegar hann skoraði 22 mörk og gaf 16 stoðsendingar sem skilaði honum útnefningunni besti leikmaður MLS-deildarinnar.

Hann byrjaði 2016-tímabili vel, 8 mörk í fyrstu 10 leikjunum, en síðan hefur ekkert gengið upp hjá honum fyrir framan markið. Hann ætlaði sér að vera á EM í Frakklandi með ítalska landsliðinu en ekkert varð af því.

Giovinco var nefnilega út í kuldanum þegar Antonio Conte valdi ítalska EM-hópinn og það hefur lítið gengið hjá honum síðan.Antonio Conte valdi EM-hópinn sinn 24. maí og skaut þá á bæði Sebastian Giovinco og Andrea Pirlo fyrir að velja það að spila frekar í MLS-deildinni í Bandaríkjunum frekar en í Evrópu.

Sebastian Giovinco svaraði þessu með því að segjast ætla að sanna það inn á vellinum að hann ætti heima í landsliðinu. Það hefur ekki alveg gengið eftir.

Sebastian Giovinco skoraði síðast í MLS-deildinni 14. maí og hefur nú leikið sjö leiki í röð án þess að ná að skora. Hann lagði reyndar upp sigurmarkið í leik helgarinnar og endaði því leikinn aðeins sáttari.

Það er kannski skiljanlegt að hann hafi verið orðinn pirraður í umræddum leik þar sem hann reyndi alls 13 skot. Giovinco er alls búinn að reyna 44 skot í þessum sjö markalausu leikjum sínum.

Það er hægt að sjá pirring Sebastian Giovinco hér fyrir neðan. Kannski þarf hann aðeins þykkari treyju fyrir næsta leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×