Erlent

Forseti Indónesíu hvetur íbúa landsins til að láta ekki óttann ná tökum á sér

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Lögreglumenn í Djakarta skýla sér bak við bifreið í leit að hugsanlegum árásarmönnum stuttu eftir að sprengjurnar sprungu.
Lögreglumenn í Djakarta skýla sér bak við bifreið í leit að hugsanlegum árásarmönnum stuttu eftir að sprengjurnar sprungu. Nordicphotos/AFP
Fimm sjálfsvígsárásarmenn sprengdu sig í loft upp í gær í Djakarta, höfuðborg Indónesíu. Að minnsta kosti tveir menn aðrir létu lífið, annar var Indónesi en hinn Kanadamaður.

Tugir manna særðust, þar á meðal hollenskur karlmaður sem var í lífshættu. Einnig særðust fimm lögreglumenn.

Sex sprengjur voru sprengdar í helsta viðskiptahverfi borgarinnar. Mennirnir notuðu einnig skotvopn í árásinni.

Lögreglan í Indónesíu segir greinilegt að mennirnir hafi ætlað að líkja eftir árásunum í París í nóvember síðastliðnum.

Samtökin Íslamskt ríki í Írak og Sýrlandi, sem svo kalla sig, hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni.

Joko Widodo, forseti Indónesíu, hvatti fólk til að sýna stillingu og láta ekki óttann ná tökum á sér. Það sé einmitt markmið ofbeldis af þessu tagi: „Þessi verknaður er greinilega ætlaður til þess að raska almannareglu og breiða út skelfingu meðal almennings,“ segir í yfirlýsingu frá forsetanum.

Í desember voru níu grunaðir menn, með tengsl við Íslamska ríkið, handteknir í Djakarta. Á þeim fundust skjöl sem sýndu að þeir voru að skipuleggja hryðjuverk í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×