Erlent

Bandarískur nemandi handtekinn í Norður Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá 70 ára afmælishátíð Verkamannaflokksins í Norður-Kóreu.
Frá 70 ára afmælishátíð Verkamannaflokksins í Norður-Kóreu. Vísir/AFP
Yfirvöld Norður Kóreu tilkynntu í dag að bandarískur nemandi hefði verið handtekinn þar í landi. Hann ferðaðist til Norður Kóreu sem ferðamaður, en er sakaður um ótilgreint „óvinveitt atferli“ og sagður vera á vegum stjórnvalda Bandaríkjanna.

Nemandinn, sem heitir Otto Frederick Warmbier, er sagður hafa komið til einræðisríkisins til að „gera út af við einingu þjóðarinnar.“ Þetta kemur fram á vef KCNA, ríkisfjölmiðils Norður Kóreu. Þar segir að nemandinn sé til frekari rannsóknar.

Í síðasta mánuði var 60 ára gamall prestur frá Kanada dæmdur til þrælkunarvinnu fyrir æsa íbúa gegn stjórnvöldum Norður Kóreu.

Samkvæmt AFP fréttaveitunni hafa yfirvöld landsins notað hugtakið „óvinveitt atferli“ áður gegn erlendum aðilum sem hafa verið handteknir. Þá þykir að að Warmbier er sagður hafa verið á vegum stjórnvalda Bandaríkjanna gefa í skyn að hann verði líklega ákærður fyrir njósnir.

Kínversks ferðaskrifstofa hefur staðfest að einn af viðskiptavinum þeirra hafi verið handtekinn í Pyongyang, höfuðborg Norður Kóreu.

Bandaríkin eru nú, ásamt Suður Kóreu, í forsvari fyrir hertar þvinganir gegn Norður Kóreu vegna kjarnorkuvopnatilrauna þeirra. AP fréttaveitan segir að stjórnvöld Norður Kóreu hafi áður handtekið erlenda ferðamenn þegar mikil spenna ríkir á milli þeirra og annarra ríkja. Ferðamennirnir eru svo notaðir til þess að ná fram málamiðlunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×