Af þeim níu sem mega kjósa í bænum Dixville Notch í New Hampshire, kusu fjórir Bernie Sanders. Þrír kusu John Kasich og tveir kusu Donald Trump. Bærinn er iðulega fyrstur til að gefa upp niðurstöður sínar í forvali fyrir forsetakosningar og kemst alltaf í heimsfréttirnar á fjögurra ára fresti.
Samkvæmt könnunum er Trump líklegastur Repúblikana til að vera kosinn í New Hampshire og Bernie Sanders þykir líklegur til að sigra Hillary Clinton.
Trump skaut hörðum skotum að Jeb Bush í sjónvarpsviðtali í gær og sagði hann vera að brotna niður. Hann sagði Bush vera ofdekrað barn og að fjölskylda hans skammaðist sín vegna hans.
Bush sjálfur lýsti Trump sem „loser“, lygara og vælukjóa. Hann sagði Trump vera versta möguleikann í forsetaframboðinu og gerði út á tilhneigingu Trump til að meðal annars móðga konur, gera grín að fötluðum og kalla bandaríska stríðsfanga aumingja.
Þrátt fyrir að New Hampshire sé ekki stórt né fjölmennt ríki þykir það mjög mikilvægt. Þetta er annað ríkið sem forvalið á sér stað og er það mikilvægt til að koma framboðum af stað.