Enski boltinn

Klopp vill fara alla leið í deildabikarnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. vísir/getty
Jürgen Klopp mun leggja áherslu á að hans menn í Liverpool fari alla leið í ensku deildabikarkeppninni í vetur.

Þau lið í ensku úrvalsdeildinni sem ekki taka þátt í Evrópukeppni í vetur hefja þátttöku í annarri umferð deildabikarsins og mætir Liverpool enska B-deildarliðinu Burton Albion í kvöld.

„Fenguð þið það á tilfinninguna í fyrra að við vildum ekki vinna deildabikarinn? Hvernig væri annað hægt en að vera með 100 prósent metnað?“ sagði Klopp á blaðamannafundi í gær.

„Við erum ekki í Evrópukeppni í vetur og viljum vinna eins marga titla og mögulegt er. Og þegar við segjum það þá teljum við deildabikarinn að sjálfsögðu með.“

Liverpool komst í úrslitaleikinn í fyrra en tapaði þá fyrir Manchester City eftir vítaspyrnukeppni, þar sem lærisveinar Klopp skoruðu úr aðeins einni spyrnu af fjórum.

Sjá einnig: Caballero hetja Manchester City í úrslitum deildabikarsins

„Það var gaman að vera í úrslitaleiknum í fyrra. Það var ekki jafn gaman að úrslitunum en reynslan var mjög skemmtileg fyrir stuðningsmenn Liverpool fram að vítaspyrnukeppninni.“

Leikur Burton Albion og Liverpool verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 og hefst klukkan 18.45.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×