Viðskipti innlent

Þorsteinn hættur hjá SA og fer í þingframboð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þorsteinn Víglundsson stefnir á Alþingi.
Þorsteinn Víglundsson stefnir á Alþingi.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjri Samtaka atvinnulífsins, hefur ákveðið að gefa kost á sér í framboð til Alþingis fyrir Viðreisn. Hann lætur nú þegar af störfum hjá Samtökum atvinnulífsins og mun Hannes G. Sigurðsson aðstoðarframkvæmdastjóri stýra starfi samtakanna uns nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn. Þorsteinn var ráðinn framkvæmdastjóri SA í mars 2013.

„Ég mun leiða annað Reykjavíkurkjördæmanna, segir Þorsteinn í samtali við Vísi. Hann segir mikla breytingu verða á sínum högum við þetta. „Ég hef nú alltaf haft mikinn áhuga á pólitík og hann hefur ekkert minnkað í störfum mínum hjá Samtökum atvinnulífsins,“ segir Þorsteinn og bætir því við að ýmsar áskoranir séu framundan í íslenskri pólitík. Þar nefnir hann einkum heilbrigðiskerfið. Þorsteinn segist alltaf hafa litið á sjálfan sig sem frjálslyndan hægri krata og því hafi sjónarmið Viðreisnar höfðað til sín. 

Í tilkynningu á vef Samtaka atvinnulífsins þakkar Björgólfur Jóhannsson, formaður samtakanna, Þorsteini fyrir störf sín. „Það er eftirsjá af Þorsteini hjá SA, en um leið er ánægjulegt að sjá öflugan forystumann í íslensku atvinnulífi gefa kost á sér í stjórnmálin. Fyrir hönd SA þakka ég honum kærlega fyrir frábært starf og óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.“

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×