Enski boltinn

Zlatan: Þetta er eins og stórt púsluspil

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Zlatan er kominn með þrjú mörk í ensku úrvalsdeildinni.
Zlatan er kominn með þrjú mörk í ensku úrvalsdeildinni. vísir/getty
Zlatan Ibrahimovic segir að þótt Manchester United hafi farið vel af stað á tímabilinu eigi liðið nóg inni.

„Ég er ánægður með liðið. Tveir leikir, tveir sigrar. Við verðum betri og betri. Þetta er góð byrjun. Við þurfum að venjast því að vinna því andlegi þátturinn skiptir miklu máli,“ sagði Zlatan sem skoraði bæði mörk United í 2-0 sigri á Southampton á heimavelli í kvöld.

Þetta var fyrsti heimaleikur United undir stjórn José Mourinho og jafnframt fyrsti leikur Pauls Pogba fyrir United eftir félagaskiptin frá Juventus. En Zlatan skyggði á þá báða.

Sænski framherjinn segir að United-liðið verði sterkara þegar á líður tímabilið, þegar allir nýju leikmennirnir eru komnir inn í hlutina, innan vallar sem utan.

„Ég er nýr hérna. Það er ekki einu sinni mánuður síðan ég kom. Ég þarf að kynnast öllum, hvernig við spilum, öllu inni á vellinum og utan hans,“ sagði Zlatan.

„Allt er nýtt. Þetta er eins og stórt púsluspil og við þurfum að raða púslunum saman.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×