Viðskipti innlent

Mat Samkeppniseftirlitsins að afhending gagnanna brjóti gegn lögum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Úr Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Úr Flugstöð Leifs Eiríkssonar. vísir/pjetur
Afhendi Isavia Kaffitári útboðsgögn vegna leigu á verslunar- og veitingahúsnæði í Flugstöð Leifs Eiríkssonar gæti það þýtt að bæði fyrirtæki myndu brjóta gegn samkeppnislögum eða í það minnsta raska samkeppni. Þetta kemur fram í bréfi frá lögmanni Samkeppniseftirlitsins til Kaffitárs.

Í síðasta mánuði staðfesti Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál þess efnis að Isavia skuli afhenda Kaffitári útboðsgögn vegna leigu á verslunar-og veitingahúsnæði í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Málið snýst um veitingarými í flugstöðinni en Kaffitár var eitt þeirra fyrirtækja sem gerði tilboð í slíkt rými. Isavia ákvað hins vegar að taka tilboðum Joe and the Juice og Segafredo. Kaffitár hefur krafist þess að sjá niðurstöður og rökstuðning Isavia fyrir þeirri niðurstöðu en Isavia ekki viljað afhenda gögnin.

Sjá einnig:Kaffitár bíður enn eftir gögnum frá Isavia: „Þeir verða að afhenda gögnin“

Í yfirlýsingu frá Isavia segir að í forvalinu hafi verið óskað eftir mjög ítarlegum viðskiptagögnum. Fyrirtækið hét fullum trúnaði í ljósi þess hve ítarleg gögnin voru. Að mati Isavia og Samkeppniseftirlitsins er þar um að ræða samkeppnislega viðkvæm gögn sem óheimilt er að afhenda þriðja aðila.

„Ljóst er að þessar upplýsingar innihalda m.a. nákvæmar viðskipta- og markaðsáætlanir, upplýsingar um verð og ítarlegar greiningar á kostnaði og framlegð þeirra aðila sem þátt tóku í útboði Isavia og voru þar með keppinautar Kaffitárs um verslunarrými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Meðal umræddra aðila er jafnframt keppinautur Kaffitárs á veitingamarkaði á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í bréfi Samkeppniseftirlitsins.

Eftir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál kvað upp úrskurð sinn fór Kaffitár fram á það að fá gögnin afhent með beinni aðfarargerð. Samkvæmt heimildum fréttastofu er svipað upp á teningnum nú.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×