Viðskipti innlent

Fordæmalausri fjölgun er spáð

Svavar Hávarðsson skrifar
Næstu fjögur árin verða til 876 ný störf á ári á Keflavíkurflugvelli - eftirspurn er þegar meiri en framboð á húsnæði á Suðurnesjum.
Næstu fjögur árin verða til 876 ný störf á ári á Keflavíkurflugvelli - eftirspurn er þegar meiri en framboð á húsnæði á Suðurnesjum. Vísir/Stefán
Staðan á fasteignamarkaði á Suðurnesjum hefur gjörbreyst á stuttum tíma en eftirspurn er nú meiri en framboð. Frágengnir kaupsamningar á fyrstu níu mánuðum ársins eru helmingi fleiri en allt árið 2013. Á sama tíma er fordæmalausri fjölgun starfa spáð á svæðinu á næstu árum og áratugum, með fyrirsjáanlegum þrýstingi á fasteignamarkaðinn.

Eins og Fréttablaðið sagði frá fyrir helgi er því spáð að fjölgun starfa á Keflavíkurflugvelli næstu tvo áratugina jafngildi að meðaltali einu álveri árlega – eða rúmlega 400 manns. Rætist þessi spá verður það gríðarlega flókið verkefni fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum, og landsmenn alla, að mæta þeirri fólksfjölgun sem um ræðir og er án fordæma, eins og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, benti á.

Í greiningu Íslandsbanka um húsnæðismarkaðinn á Íslandi sem kynnt var á mánudag, er bent á ýmsar ástæður og skýringar sem þessu tengjast. Fyrir það fyrsta hefur fólksfjölgun hvergi verið meiri en á Suðurnesjum síðasta áratug, eða 25,6 prósent. „Þessi mikla fólksfjölgun síðastliðin tíu ár á Suðurnesjum skýrist einna helst af uppbyggingu í Innri-Njarðvík og nýrri íbúðabyggð á Varnarstöðinni, erlendu vinnuafli og auknum fólksflutningum af höfuðborgarsvæðinu vegna ódýrara íbúðarhúsnæðis á Suðurnesjum,“ segir þar.

Ingólfur Bender
Þar segir einnig að laun hafi hækkað á bilinu tíu til 22 prósent eftir landshlutum frá 2010 og hefur mesta launahækkunin átt sér stað á Suðurnesjum, eða 22 prósent, en þar á eftir kemur höfuðborgarsvæðið með sautján prósent. Sé launaþróun á Suðurnesjum skoðuð í samhengi við þróun á íbúðaverði sést að laun hafa hækkað 29 prósentustigum umfram íbúðaverð, segir í greiningunni.

Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka, segir þróunina á Suðurnesjum sérstaklega áhugaverða í því ljósi að svæðið hefur gengið í gegnum miklar sveiflur á nokkurra ára tímabili – frá mesta atvinnuleysi á landsvísu eftir hrun, yfir í blómstrandi ferðaþjónustu dagsins í dag með tilheyrandi uppbyggingu. „Nú bregður svo við að hverfandi atvinnuleysi er á svæðinu og innflutningur á vinnuafli töluvert mikill. Nú þegar er skortur á húsnæði sem þrýstir verðinu upp og ljóst að fasteignamarkaðurinn mun ekki halda í við vöxtinn nema talsvert verði byggt af húsnæði,“ segir Ingólfur og bætir við að sérstaðan sé ekki síst sú að þrýstingur á fasteignamarkaðinn kemur frá auknu vinnuafli á svæðinu, en minna frá ferðamanninum beint sjálfum eins og í Reykjavík þar sem rúmlega þrjú þúsund eignir voru skráðar til útleigu á Airbnb í ágúst. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir

Slagar hátt upp í íbúafjölda

Gangi spár eftir um fjölgun farþega á Keflavíkurflugvelli fjölgar beinum störfum um 11.000 á 20 árum, en það jafngildir helmingi allra íbúa sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Bæjarstjóri segir verkefnið áskorun.

Lóðaverðið tífaldast á tíu árum

Skortur á lóðum og sala þeirra á milli fjárfesta þrýstir á hærra lóðaverð. Lóðaverð er nú 5 til 10 milljónir króna á hverja íbúð. Ódýrari lóðir og einfaldara byggingarregluverk þarf til að sinna húsnæðismarkaðinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×