Skoðun

Framtíðarsýn um æðakerfi þjóðar

Herdís Anna Þorvaldsdóttir skrifar
Bættar og öruggar samgöngur eru ein mikilvægasta undirstaða samfélagsins. Vegir eru æðakerfi þjóðarinnar. Á því kerfi byggist ferðaþjónustan, heilbrigðisþjónustan, menntakerfið, útflutningur, byggðaþróun, og öll uppbygging. Vegakerfið hefur verið vanrækt undanfarin ár og er því komið í óefni.

Við þurfum faglega framtíðarsýn í umferðarmálum Íslands. Gífurleg tækniþróun bifreiða og umferðarstjórnunar hefur átt sér stað undanfarin ár og  við þurfum að innleiða þessa þróun á Íslandi. Við eigum að nota bestu aðferðir, eins og t.d. að gera umferðarmódel af suðvestur horninu fyrir svæðið í heild með alla samgöngumáta í huga. Við þurfum að fá hlutlausa erlenda sérfræðinga að málinu með heildarhagsmuni en ekki sérhagsmuni að leiðarljósi.

Við eigum að setja umferðaröryggi í forgang. Það er óásættanlegt að við séum að missa næstum 200 manns alvarlega slasaða og látna á hverju ári. Hættulegustu vegarkaflarnir á Íslandi eru á höfuðborgarsvæðinu þar eru tuttugu slysamestu gatnamót landsins og þar af eru sextán í Reykjavík sjálfri. Öll þessi, slysamestu gatnamót, eru ljósastýrð en það er athyglivert að umferðarmestu gatnamót landsins komast ekki á blað, enda eru þau mislæg. Núverandi meirihluti í Reykjavík hefur slegið allar úrbætur í þessum málum út af borðinu og stendur gegn því að nokkuð sé að gert.

Við þurfum að koma nýrri samgönguáætlun í gegn á Alþingi.  Þar þurfa allar samgöngur að vinna saman með þarfir notenda, umferðaröryggi og ný og strangari viðmið í gerð vega að markmiði.






Skoðun

Sjá meira


×