Enski boltinn

Merson hissa: Er Wenger hrifinn af Wilshere sem leikmanni?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wilshere hefur glímt við erfið meiðsli undanfarin ár.
Wilshere hefur glímt við erfið meiðsli undanfarin ár. vísir/getty
Paul Merson, fyrrverandi leikmaður Arsenal og sparkspekingur hjá Sky Sports, er undrandi á þeirri ákvörðun Arsene Wenger, knattspyrnustjóra Arsenal, að lána miðjumanninn Jack Wilshere til Bournemouth.

Eins og fram kom á Vísi í gær var Roma nálægt því að klófesta Wilshere áður en Bournemouth kom inn í myndina. Enska úrvalsdeildarliðið bauðst til að borga tvær milljónir punda fyrir leiguna sem og þau 80.000 pund sem leikmaðurinn fær í laun á viku.

Wilshere hefur verið mikið meiddur undanfarin ár og spilaði t.a.m. aðeins þrjá leiki á síðasta tímabili. En þrátt fyrir að vera ekki öruggur með sæti í byrjunarliði Arsenal á Merson erfitt með að skilja af hverju Wilshere var lánaður, og það í svona langan tíma.

Merson varð tvívegis enskur meistari með Arsenal.vísir/getty
„Ég var mjög hissa að sjá leikmann eins og Wilshere fara á láni út tímabilið, ég hefði skilið það ef þetta hefðu verið 1-2 mánuðir,“ sagði Merson sem lék með Arsenal á árunum 1985-97.

„Hann er frábrugðinn þeim leikmönnum sem Arsenal er með. Hann býr til hluti og getur þrætt nálaraugað með sendingum sínum.“

Merson veltir fyrir sér hvort það búi eitthvað annað að baki, en að láta Wilshere fá fleiri mínútur.

„Þetta snýst ekki um að hann þurfi að spila fótbolta, það eru margir aðrir leikmenn hjá Arsenal sem þurfa að spila,“ sagði Merson.

„Alex Oxlade-Chamberlain hefur ekki sparkað í bolta, sem og Theo Walcott, en þeir eru ekki farnir á lán. Ég myndi spyrja Wenger hvort hann hafi yfirhöfuð mætur á Wilshere.

„Er hann hrifinn af og treystir hann Wilshere sem leikmanni? Því það eru aðrir leikmenn hjá Arsenal sem hafa ekki staðið sig og ekki voru þeir lánaðir.“

Merson segir ennfremur að Wenger verði eflaust gagnrýndur fyrir þessa ákvörðun finni Wilshere sitt fyrra form hjá Bournemouth.

Wilshere, sem hefur leikið 34 landsleiki fyrir England, leikur væntanlega sinn fyrsta leik fyrir Bournemouth þegar liðið tekur á móti West Brom um næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×