Erlent

Sló litla bróður sinn með öxi í höfuðið

Átök bræðranna áttu sér stað í íbúð móður þeirra í Osló.
Átök bræðranna áttu sér stað í íbúð móður þeirra í Osló. Vísir/AP
Norskur maður á fertugsaldri hefur verið sýknaður af ákæru um að hafa reynt að myrða bróður sinn þegar hann sló hann með öxi í höfuðið.

Fyrir rétti í Osló sagðist maðurinn hafa gert það í sjálfsvörn en málið má rekja til 22. maí árið 2014 þegar bræðurinn sátu saman að sumbli á heimili móður þeirra.

Fram kemur í dómnum að framan af kvöldi hafi allt leikið í lyndi. Þegar líða tók á kvöldið hafi eldri bróðirinn þó tekið að ókyrrast og að lokum vísað þeim yngri á dyr og læst hann úti.

Yngri bróðirinn lét ekki þar við sitja heldur braust inn til þess að nálgast hleðslutæki sem hann hafði skilið eftir. Þegar hann var kominn inn aftur hafi hann hótað eldri bróður sínum lífláti og verið hinn argasti.

Það var þá sem hinn rúmlega þrítugi greip öxina, sem geymd var undir rúmi, og skipaði litla bróður sínum að yfirgefa heimilið.

Hlaut lífshættulega áverka

„Skap litla bróður míns hafði versnað og hann spýtti út sér að hann myndi drepa mig. Ég gerði ráð fyrir því að hann væri með hníf á sér og ég fann að hann var eirðarlaus. Í hræðslu minni fannst mér herbergið lýsast upp og ég sló hann með bakka axarinnar, án þess að hafa séð hvað ég var að gera,“ sagði maðurinn fyrir rétti.

Skömmu síðar kom móður þeirra heim og sá yngri son sinn alblóðugan á gólfinu. Hann hafði hlotið lífshættulega áverka og opið höfuðkúpubrot. Nágranni hennar kom svo á vettvang eftir að hafa heyrt mikil óhljóð og öskur.

Í frétt VG um málið kemur fram að við aðalmeðferð málsins hafi ítrekað verið sýnt fram á að eldri bróðirinn hafi haft alla ástæðu til að vera smeykur við þann yngri. Það hafi ekki síst verið í ljósi þess að sá yngri var dæmdur fyrir að hafa hótað fjölskyldumeðlimum ofbeldi og lífláti árið 2007.

Nánar um málið á vef VG.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×