Erlent

Bauð sýrlenskum flóttamönnum með sér í Vatíkanið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fjölskyldurnar þrjár sem fóru með páfa í Vatíkanið í dag.
Fjölskyldurnar þrjár sem fóru með páfa í Vatíkanið í dag. vísir/afp
Frans páfi tók þrjár sýrlenskar fjölskyldur með sér í Vatíkanið eftir að hann heimsótti flóttamannabúðir á eyjunni Lesbos í dag.

Alls er um tólf Sýrlendinga að ræða, þar af sex börn, en þeir eru allir múslimar. Heimili þeirra voru sprengd í loft upp í borgarastyrjöldinni sem nú geisar í heimalandi þeirra. Í yfirlýsingu sem Vatíkanið sendi frá sér eftir heimsókn páfa í dag segir að hann hafi viljað bjóða flóttamennina velkomna með því að bjóða þeim með sér í Vatíkanið.

Þúsundir flóttamanna eru í raun fastir á Lesbos vegna samnings sem Evrópusambandið gerði við Tyrkland og mun fela það í sér að fjöldi flóttamanna verður sendur aftur til Tyrklands. Í yfirlýsingu Vatíkansins kemur fram að flóttamennirnir sem fóru með páfa hafi verið komnir í flóttamannabúðirnar áður en samningurinn tók gildi.

Páfinn ávarpaði flóttamenn í búðunum á Lesbos í dag og sagði þeim meðal annars að halda í vonina og að þau væru ekki ein.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×