Erlent

12 milljarðar vinnudaga tapast

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að séu andleg veikindi ekki tekin alvarlega muni það hafa alvarlegar efnahagslegar afleiðingar.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að séu andleg veikindi ekki tekin alvarlega muni það hafa alvarlegar efnahagslegar afleiðingar. NORDICPHOTOS/GETTY
Verði meðferð vegna þunglyndis og kvíða ekki bætt getur það haft alvarlegar efnahagslegar afleiðingar á heimsvísu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, um afleiðingar þess að taka ekki andleg veikindi alvarlega.

Þeim sem glíma við andleg veikindi hefur fjölgað verulega á undanförnum árum. Árið 1990 voru þeir 416 milljónir en árið 2013 var fjöldinn 615 milljónir.

Í viðtali við breska blaðið The Guardian er haft eftir aðalframkvæmdastjóra WHO, Margaret Chan, að sjá verði til þess að allir karlar, konur og börn fái aðgengi að heilbrigðisþjónustu vegna andlegra veikinda.

Nær tíu prósent jarðarbúa glíma við andleg veikindi. Reiknað hefur verið út að tólf milljarðar vinnudaga tapist á hverju ári fram til ársins 2030 verði ekki brugðist við.

Höfundar skýrslunnar, sem birt er í Lancet Psychiatry, hafa reiknað út að fyrir hvern dollara sem varið er í betri meðferð við þunglyndi og kvíða fáist fjórir dollarar til baka þar sem batinn verði skjótari og viðkomandi komist fyrr til starfa. Rannsóknin er meðal annars byggð á kostnaði vegna heilbrigðismála í 36 löndum. Skýrsluhöfundar leggja áherslu á að þótt vandamálið sé ekki alls staðar jafnmikið þurfi öll lönd að gefa því gaum.

Skýrslan var birt fyrir fund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington núna um helgina. Meðal fundarefna á dagskrá er hvernig bæta má andlega heilsu.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×